Innlent

Mislingar um borð í flugvélum Icelandair og Air Iceland Connect

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Um var að ræða flug FI455 með Icelandair og flug NY356 með Air Iceland Connect umrædda daga.
Um var að ræða flug FI455 með Icelandair og flug NY356 með Air Iceland Connect umrædda daga. vÍSIR/VILHELM
Mislingasmit kom upp um borð í flugvélum Icelandair og Air Iceland Connect þann 14. og 15. febrúar. Þetta staðfestir Áslaug Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair í samtali við Vísi. RÚV greindi fyrst frá málinu í dag.

Í frétt RÚV kemur fram að farþegum og áhöfn sem flugu með Icelandair frá London til Keflavíkur þann 14. febrúar síðastliðinn hafi verið send tilkynning frá sóttvarnarlækni um möguleika á mislingasmiti. Farþegum og áhöfn flugvélar Air Iceland Connect sem flaug frá Reykjavík til Egilsstaða daginn eftir, þann 15. febrúar, hafi verið send sambærileg tilkynning. Hefur RÚV eftir tilkynningu að um hafi verið að ræða flug FI455 með Icelandair og flug NY356 með Air Iceland Connect.

Áslaug segir í samtali við Vísi að mislingasmit sé staðfest hjá einum farþega vélar Icelandair. Þá staðfestir hún einnig að mislingasmit hafi komið upp í vél Air Iceland Connect. Hún gat ekki veitt upplýsingar um það hvort um sömu manneskju væri að ræða.

„Í raun og veru fylgjum við bara leiðbeiningum sóttvarnarlæknis ef svona kemur upp og höfum sent farþegum allar nauðsynlegar upplýsingar og leiðbeiningar í samráði við sóttvarnarlækni.“

Fylgist vel með einkennum

Mislingar eru sérstaklega hættulegir börnum, þunguðum konum og fólki með viðkvæmt ónæmiskerfi. Farþegum áðurnefndra leiða er ráðlagt að fylgjast vel með einkennum sjúkdómsins; sem sögð eru vera hár hiti, hóstaköst, nefrennsli, særindi í augum, viðkvæmni fyrir birtu og rauð útbrot sem geti varað í allt að viku.

Á vef landæknis segir að einkenni mislinga geta verið lík ýmsum öðrum sjúkdómum og því sé rétt er að hafa samband við lækni til að fá staðfestingu á að um mislinga sé að ræða.

Reglulega er tilkynnt um mislingasmit í flugvélum en tilkynning barst til að mynda um slíkt smit í flugvél Icelandair frá Keflavík til Toronto síðasta sumar. Þá kom einnig upp mislingatilvik í vélum WOW air frá London til Keflavíkur og Keflavíkur til Detroit um svipað leyti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×