Vísindamenn og verkfræðingar bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA eru við það að gefa upp alla von um að þeir nái nokkru sinni sambandi við Marsjeppann Opportunity aftur. Ekkert hefur spurst til geimfarins, sem hefur verið í fimmtán ár á Mars, í tæpa átta mánuði eftir ógurlegan rykstorm sem gekk yfir reikistjörnuna.
Stormurinn var sá versti sem menn hafa séð á þeim fjörutíu árum sem þeir hafa send könnunarför til yfirborðs Mars. Náði hann á tímabili þvert yfir reikistjörnuna og lokaði á allt sólarljós.
Það voru slæmar fréttir fyrir Opportunity sem er sólarknúinn. Þegar síðast náðist samband við könnunarjeppann 10. júní var sólargeislunin aðeins einn fertugasti af því sem hún hafði verið fyrir storminn, að sögn Scientific American.
Talið er að Opportunity hafi lagst í dvala þegar orkan var á þrotum í miðjum storminum. Verkfræðingar NASA hafa síðan reynt að ná sambandi við jeppann en án árangurs. Vonir höfðu staðið til þess að jeppinn gæti hlaðið sig þegar storminum slotaði. Þegar það gerðist ekki vonuðust menn til þess að vindatímabilið á Mars myndi hreinsa sólarsellur geimfarsins.
Nú virðist öll von úti um að Opportunity hafi lifað storminn af. Án orku hefur jeppinn ekki getað knúið hitara sem forða viðkvæmum vélbúnaði frá því að verða frostinu á yfirborði Mars að bráð. Búist er við því að NASA lýsi því fljótlega yfir að leiðangurinn sé loks á enda runninn.
Opportunity hefur skráð sig í sögubækurnar sem langlífasta könnunarfar á yfirborði annarrar reikistjörnu. Fimmtán ár eru nú liðin frá því að hann lenti á Mars 25. janúar árið 2004 en upphaflega átti leiðangurinn aðeins að standa yfir í þrjá mánuði.
