Innlent

Langt um liðið síðan mælir sýndi svo mikið frost í Reykjavík

Birgir Olgeirsson skrifar
Einar segir að í logni geti myndast sérstakar aðstæður til myndunar kuldapolla í Víðidal sem jafnharðan gefa sig um leið og hreyfir vind.
Einar segir að í logni geti myndast sérstakar aðstæður til myndunar kuldapolla í Víðidal sem jafnharðan gefa sig um leið og hreyfir vind. Vísir/Vilhelm
Nýr hitamælir í Víðidal við Elliðaárnar sýndi 20 gráðu frost aðfaranótt 31. janúar en veðurfræðingur segir langt um liðið síðan einhver mælir innan lögsögu Reykjavíkur sýndi svo mikið frost.

Einar Sveinbjörnsson er veðurfræðingurinn sem þetta segir en á Facebook-síðu sinni bendir hann á að síðast fór frost í 20 gráður í Reykjavík 17. janúar árið 1983. Það var á mæli veðurstöðvarinnar á Hólmi norðan Elliðavatns sem sýndi 20,6 gráðu frost en stöðin var aflögð skömmu síðar.

Einar segir að í logni geti myndast sérstakar aðstæður til myndunar kuldapolla í Víðidal sem jafnharðan gefa sig um leið og hreyfir vind.

„-15,1°C mælidist á Veðurstofunni 19. nóvember 2004 og -14,9°C 7. mars 1998 í einu mesta kuldakasti suðvestanlands frá hafísárunum hinum síðari. Hólmur og Víðdalur hefðu áreiðanlega farið yfir 20 stigin ef þar hefði verið mælt,“ skrifar Einar.

Einar segir mesta frostið sem mælst hefur á höfuðborgarsvæðinu hafa verið í janúar árið 1971 þegar frostið á Hólmi fór í 25,7 gráður, en það var mesti kuldi frá 1918. 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×