Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Grindavík 94-65 | Njarðvík lék á alls oddi gegn Grindavík

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Logi Gunnarsson, leikmaður Njarðvíkur getur verið kampakátur með sína menn eftir stórsigur gegn Grindavík
Logi Gunnarsson, leikmaður Njarðvíkur getur verið kampakátur með sína menn eftir stórsigur gegn Grindavík vísir/ernir
Topplið Njarðvíkur fengu nágranna sína úr Grindavík í heimsókn í Ljónagryfjuna í kvöld í Dominos-deild karla.

 

Jafnræði var á með liðunum í fyrsta leikhluta og skiptust liðin á að skora, en allt virtist fara ofan í í leikhlutanum. Góður lokasprettur skilaði Njarðvíkingum hins vegar þriggja stiga forskoti er fyrsti leikhluti kláraðist.

 

Áður en annar leikhluti hófst, bjóst maður við svipuðum leikhluta og sá fyrsti var. Svo varð hins vegar ekki. Njarðvíkingar léku á alls oddi í leikhlutanum og völtuðu hreinlega yfir nágranna sína. Leikhlutann unnu þeir hvorki meira né minna en 28-9.

 

Njarðvíkingar fóru því með ansi þægilega forystu inn í hálfleikinn, 56-34.

 

Grindvíkingar komu sterkari til leiks í þriðja leikhlutann og náðu að minnka muninn niður í níu stig, en þá tóku Njarðvíkingar aftur við sér og keyrðu aftur yfir Grindvíkinga.

 

Fyrir lokaleikhlutann leiddu heimamenn með þrettán stigum, en líkt og í öðrum leikhluta, keyrðu Njarðvíkingar yfir Grindvíkinga í lokaleikhlutanum og lokatölur 94-65.

 

Af hverju vann Njarðvík?

 

Einfalt svar er að Njarðvík er einfaldlega betra lið en Grindavík, flóknara er það nú ekki. Grindavík hefði alveg getað gert spennandi leik úr þessu en arfaslakur annar leikhluti varð þeim ansi dýrkeyptur. Þeir reyndu að koma til baka í þriðja leikhluta, en Njarðvíkingar reyndust of sterkir.

 

Hverjir stóðu upp úr?

 

Elvar Már og Jeb Ivey spiluðu ekkert bestu leiki sína fyrir Njarðvík í kvöld, þótt svo þeir voru alls ekki slappir. En þá stigu bara aðrir upp. Leikmannahópur Njarðvíkur er gríðarlega stór og mikil dýpt í honum. Maciej Baginski var mjög góður í kvöld og skoraði 23 stig. Hann var vel heitur fyrir utan þriggja stiga línuna en hann skoraði sex þrista. Þá var nýi leikmaður Njarðvíkur, Eric Katenda virkilega öflugur á báðum endum vallarins, en hann varði sjö skot í kvöld. Kristinn Pálsson átti góðan leik, Ólafur Helgi líka sem og Jón Arnór. Heilt yfir mjög góð frammistaða hjá Njarðvík.

 

Hvað gekk illa?

 

Grindvíkingar voru arfaslakir í öðrum leikhluta, sem og þeim fjórða. Þá datt ekkert niður hjá þeim og Njarðvíkingar virtust labba framhjá þeim í vörninni. Lewis Clinch var stigahæstur í liði Grindavíkur með 15 stig, en þau komu öll í seinni hálfleik. Hann átti alls ekki góðan fyrri hálfleik. Grindavík verður að fá meira frá honum. Jordy hefur einnig átt betri leiki sem og Sigtryggur Arnar.

 

Hvað gerist næst?

 

Það er stór vika framundan hjá Njarðvíkingum. Þeir mæta KR eftir viku í undanúrslitum bikarsins og vinni þeir þann leik leika þeir til úrslita tveimur dögum síðar. Grindvíkingar fá hins vegar gott frí en næsti leikur hjá þeim er ekki fyrr en 3. mars, einnig gegn KR á heimavelli.

 

Maciej: Ég er ekki búinn að hitta neitt síðan í nóvember

 

Maciej Baginski átti flottan leik í liði Njarðvíkur er þeir unnu öruggan sigur á nágrönnum sínum úr Grindavík, 94-65 í Dominos-deild karla.

 

„Tilfinningin er bara mjög góð. Við erum alltaf að reyna að bæta okkur. Vörnin var svona í áttina að því sem var í seinasta leik. Við byrjuðum hins vegar ekki vel báða hálfleikina.“

 

Maciej var stigahæstur í liði Njarðvíkur með 23 stig, en hann var heitur fyrir utan þriggja stiga línuna og setti niður sex þrista í leiknum.

 

„Ég er ekki búinn að hitta neitt síðan í nóvember þannig loksins datt þetta, vonandi heldur þetta áfram í framhaldinu.“

 

Skemmtileg staðreynd úr leiknum í kvöld, en þá klúðraði Maciej fleiri vítaskotum heldur en þriggja stiga skotum. Maciej segir það hins vegar ekki auðveldara að hitta fyrir utan þriggja stiga línuna heldur en af vítalínunni.

 

„Nei vítin eru bara hausinn á manni. Ef maður er eitthvað vanstilltur, þá detta þau ekki ofan í.“

 

Framundan eru spennandi tímar hjá Njarðvíkingum. Liðið er með fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar þegar liðið á eftir að leika fjóra leiki. Stjarnan er í öðru sæti, og eiga leik til góða. Þá er liðið komið í undanúrslit í Geysisbikarnum. Njarðvíkingar mæta Íslandsmeisturum KR í undanúrslitum en sá leikur fer fram eftir viku. Vinni þeir gegn KR leika þeir til úrslita þann 16. febrúar. Það eru því tveir titlar í augsýn hjá Njarðvíkingum, deildarmeistaratitillinn og bikarmeistaratitillinn. Langt er síðan Njarðvíkingar lyftu titli og eru þeir þyrstir í Ljónagryfjunni.

 

„Það sem er jákvætt í þessu, þá er þetta allt í okkar höndum. Við erum enn að reyna að vinna fyrsta sætið í deildinni fyrir úrslitakeppni, og í bikarnum geta leikir dottið hvernig sem er. Þannig þetta er allt í okkar höndum og við erum mjög sáttir með það.“

 

Einar Árni: Búið að vera skemmtilegur vetur

 

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur var að vonum kampakátur með frammistöðu lærisveina sinna í öruggum sigri Njarðvíkur á nágrönnum sínum úr Grindavík í Ljónagryfjunni í kvöld.

 

„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna á löngum stundum. Það sem stendur upp úr er varnarleikurinn í öðrum leikhluta og síðustu þrettán mínúturnar í leiknum. Þeir skoruðu ekki mikið af körfum á þeim tímapunkti.

 

Jafnræði var með liðunum eftir fyrsta leikhluta en leikurinn var næstum ósanngjarn í öðrum leikhluta þar sem Njarðvíkingar léku á alls oddi gegn Grindvíkingum.

 

„Við spiluðum frábæra vörn. Þeir skora 25 stig í fyrsta leikhluta en skora bara 9 stig í öðrum leikhluta. Á sama tíma héldum við sjó sóknarlega. Við komum ekki nógu sterkir í þriðja leikhluta. En styrkur að koma til baka. Það sem stendur upp úr hjá mér er varnarleikurinn sem var frábær.“

 

Framundan eru spennandi tímar hjá Njarðvíkingum en liðið trónir á toppi deildarinnar og deildarmeistaratitillinn í augsýn. Eftir viku ræðst svo hvort Njarðvíkingar munu leika til úrslita um bikarmeistarartitilinn en liðið mætir þá KR í undanúrslitum í Geysisbikarnum.

 

„Þetta er búið að vera skemmtilegur vetur. Við erum hrikalega stoltir af stuðningsmönnum okkar sem hafa fjölmennt á alla heimaleiki og all flesta útileiki. Frábært að geta boðið þeim upp á það að fara í Höllina. Við höfum ekki farið þangað síðan árið 2005, þannig það verður frábært. Nú verðum við að undirbúa vikuna vel fyrir stríð.“

 

Skotnýting Njarðvíkinga var frábær í kvöld en þeir voru með tæplega 60% nýtingu í skotum sínum. Þar af 60% nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna. Einar vildi þó ekki meina að skotin hafi verið æfð sérstaklega í aðdraganda leiksins.

 

„Nei við erum svo sem alltaf að skjóta boltanum inn á milli. Ég held að þetta hafi snúist meira um það að við vorum þolinmóðir í okkar aðgerðum. Við vorum að fara með boltann á blokkina og hreyfðum boltann ofboðslega vel. Við erum með frábæra skotmenn og við nýttum skotin vel í kvöld.“

 

Eric Katenda var að leika sinn annan leik fyrir Njarðvík í kvöld og var hann feikilega öflugur. Varði hann til að mynda sjö skot í leiknum og var sterkur á báðum endum vallarins. Þá var liðsheild Njarðvíkinga sterk í kvöld.

 

„Já Erik kemur með mikla vigt í þetta. Hann ver sjö skot í leiknum og tekur fullt af fráköstum. Hann er mjög góður í teignum. Maciej var stórkostlegur. Erfitt að taka menn út, það voru svo margir góðir. Kristinn Pálsson, verð að nefna hann. Besti leikur hans í langan tíma. Jón Arnór með framlag, Logi með framlag. Jeb Ivey stýrði þessu frábærlega og Elvar flottur eins og venjulega. Við vorum að fá öflugt liðsframlag, það er sem þetta snýst um.“

 

Jóhann Þór: Erum að glíma við ákveðið vesen innan hópsins

 

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur var að vonum svekktur með frammistöðu sinna manna gegn Njarðvík í kvöld. Njarðvíkingar unnu öruggan sigur, 94-65.

 

„Við vorum góðir í tvo leikhluta, fyrsta og þriðja. En það var allt of langt á milli, gátum ekki neitt í öðrum og fjórða leikhluta. Á móti svona góðu liði eins og Njarðvík þá gengur það ekki. Við áttum erfitt með að fylgja því eftir sem við lögðum upp með varnarlega og dettum þá í fáránlegar ákvarðanir í sókn. Þetta helst í hendur. Alltof stórt tap, en við áttum bara aldrei séns.“

 

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta, en himinn og haf var á milli liðanna í öðrum leikhluta þar sem Njarðvíkingar keyrðu hreinlega yfir Grindvíkinga. Jóhann telur sig hafa skýringar á því hvað fór úrskeiðis í leikhlutanum.

 

„Ég tel mig hafa skýringar á því en ég ætla ekki að fara yfir það hér. Við ræðum það ég og Danni og reynum að finna lausn á því.“

 

Lewis Clinch hefur átt betri leiki í búningi Grindavíkur. Hann var stigalaus í hálfleik og gerði lítið sem ekkert til þess að hjálpa liðsfélögum sínum. Hann kom þó sterkari til leiks í síðari hálfleik.

 

„Hann hverfur alltof mikið. Þetta er alltof mikið upp og niður hjá honum. Við höfum rætt þetta og hann er að reyna laga þetta. Hann þarf að vera mikið meira áberandi í gegnum allan leikinn. Hann algjörlega hverfur inn á milli, á leiki þar sem hann getur ekki neitt og á svo geggjaða leiki inn á milli. Hann þarf að finna stöðugleika.“

 

Aðspurður að því hvað þarf að laga fyrir næsta leik var Jóhann ekki búinn að hugsa út í það, enda langt í næsta leik hjá Grindavík. Næsti leikur þeirra er eftir tæpan mánuð. Jóhann bætir þá einnig við að það eru ákveðin vandamál innan hópsins sem hann þarf að finna lausnir á.

 

„Ég er ekki kominn svo langt, næsti leikur er í mars. Við ætlum bara að reyna að nýta fríið vel og slípa okkur saman. Við erum að glíma við ákveðið vesen innan hópsins og erum að reyna finna lausnir á því. Ég ætla ekkert að tala um það opinberlega, þetta er bara það sem við erum í vandræðum með. Ekkert drama eða neitt þannig, bara svona inn á vellinum. Við fáum nú góðan tíma til að finna lausnir á því og laga það sem laga þarf.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira