Þrjátíu og níu eru látnir og yfir tuttugu hafa veikst eftir að hafa drukkið heimabrugg í norðurhluta Indlands.
Um er að ræða tvö aðskilin atvik, samkvæmt indversku lögreglunni létust 26 í héraðinu Uttar Pradesh og 13 í nærliggjandi héraði, Uttarakhand.
Talið er að hin látnu hafi drukkið heimabruggið við hátíðarhöld í héruðunum. Rannsóknir leiddu í ljós að mikið magn metanóls var í vökvanum og olli það eitruninni.
Samkvæmt frétt The Guardian eru dauðsföll af þessu tagi algeng í Indlandi en vegna fátæktar í ýmsum hlutum landsins hefur fólk ekki efni á áfengi öðru en heimabruggi sem ekki er alltaf treystandi.
Lögreglan hefur vegna málsins handtekið átta grunaða um að hafa stundað heimabrugg.
Tugir létust eftir að hafa drukkið heimabrugg
Andri Eysteinsson skrifar
