Erlent

Guaidó í farbann og eignir frystar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Juan Guaidó segir forseta landsins, Nicolás Maduro, vera valdaræningja.
Juan Guaidó segir forseta landsins, Nicolás Maduro, vera valdaræningja. vísir/afp
Hæstiréttur Venesúela hefur bannað leiðtoga stjórnarandstöðunnar í landinu, Juan Guaídó, að yfirgefa landið og þá hafa bankareikningar hans verið frystir. Í erlendum miðlum er ákvörðunin rakin beint til ólgunnar sem komin er upp í þarlendum stjórnmálum, ekki síst eftir að Guaidó lýsti því yfir í síðustu viku að hann væri hinn réttkjörni forseti þjóðarinnar.

Guaidó nýtur stuðnings fjölda vestrænna ríkja, þeirra stærst eru Bandaríkin sem lögðu á dögunum viðskiptaþvinganir á ríkiolíufélag Venesúela. Forseti landsins, Nicolás Maduro, á sér þó einnig öfluga bandamenn, til að mynda Rússa.

Maduro sagði í samtali við rússneska fjölmiðla að hann væri reiðubúinn að setjast niður með fulltrúum stjórnarandstöðunnar með það fyrir augum að höggva á hnútinn. Stjórnarandstaðan hefur kallað eftir því að stuðningsmenn hennar taki þátt í friðsælum fjöldamótmælum í dag. Til stendur að mótmælin standi yfir í tvær klukkustundir en óljóst er hvort Guaidó sjái sér fært að taka þátt.

Þrátt fyrir að fjöldamótmæli hafi sett svip sinn á Venesúela á undanförnum árum hafa þau færst í aukana frá 10. janúar síðastliðnum, þegar annað kjörtímabil Maduro hófst formlega. Talið er að hið minnsta 40 manns hafi látið lífið og að hundruð mótmælenda hafi verið handteknir í tengslum við mótmælin frá 21.janúar. Þá hafa milljónir flúið landið vegna bágs efnahagsástands, sem endurspeglast meðal annars í matar- og lyfjaskorti.


Tengdar fréttir

Venesúelamenn vilja vestræn vopn

Liðhlaupar úr venesúelska hernum leita á náðir Bandaríkjanna og biðja um að stjórnarandstæðingum í Venesúela séu send vopn svo hægt sé að steypa Nic­olás Maduro forseta af stóli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×