Innlent

Hálfur milljarður hjá Veitum í heitavatnsholu sem skilað hefur litlu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Niðursetning djúpdælu í borholu Veitna á Laugalandi.
Niðursetning djúpdælu í borholu Veitna á Laugalandi. Mynd/Veitur
Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, gerir athugasemdir við fullyrðingar Antons Kára Halldórssonar sveitarstjóra um heitavatnsmál í Rangárvallasýslu.

Ólöf hafnar því að það sé ekki kappsmál fyrir Veitur að útvega heitara vatn.

„Árið 2017 var yfir 400 milljónum varið til að bora nýja holu að Laugalandi. Því miður varð árangur ekki eins og vonast var til. Undanfarnar vikur hafa verið settar um 100 milljónir í nýjan dælubúnað í þá holu,“ segir Ólöf. Þetta muni auka rekstraröryggi veitunnar. Ekki sé komin reynsla á fyrirkomulagið en vonast sé til að nýta megi nýju holuna sem toppafl er álag er mikið. Frekari rannsóknir standi yfir.

„Notendum í Rangárveitum hefur fjölgað nokkuð á undanförnum árum og inn komið margir stórir notendur, eins og t.d. hótel og önnur ferðaþjónustufyrirtæki. Það veldur álagi á veituna, sér í lagi þar sem leit að meira heitu vatni hefur ekki skilað nægum árangri þótt mikið hafi verið í lagt,“ segir Ólöf um þá fullyrðingu sveitarstjórans að hitaveitan hafi ekki fylgt taktinum í uppbyggingu á svæðinu og því skorti heitt vatn.

Enn fremur hafnar Ólöf því að lagnir séu gamlar. Þær séu frá árinu 2000.

Að sögn Ólafar er hækkun reikninga hjá notendum sambærileg við hækkun á öðrum svæðum.

Að endingu segir Ólöf að kyndistöð sé ekki starfrækt þar sem vatn kólni ekki eins mikið í lögnum og áður þar sem þær hafi verið endurnýjaðar.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×