Innlent

Meirihluti er hlynntur því að seinka klukkunni

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 57 prósent vilja seinka klukkunni um klukkustund.
Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 57 prósent vilja seinka klukkunni um klukkustund. Vísir/Getty
Meirihluti Íslendinga er hlynntur því að klukkunni verði seinkað um eina klukkustund í samræmi við hnattstöðu landsins. Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar sem Zenter gerði fyrir Fréttablaðið og frettabladid.is.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 57 prósent vilja seinka klukkunni um klukkustund. Rúm 30 prósent vildu hafa klukkuna óbreytta en fólk yrði með fræðslu hvatt til að fara fyrr að sofa. Þá vildu tæp 13 prósent hafa klukkuna óbreytta en skólar og fyrirtæki og stofnanir hæfu starfsemi seinna á morgnana.

Þetta eru þeir þrír valkostir sem forsætisráðuneytið setti fram í greinargerð um staðartíma. Málið er nú í samráðsferli en alls hafa tæplega 1.200 umsagnir borist.

Lítill munur er á afstöðu kynjanna til hugsanlegra breytinga á klukkunni. Þá eru ekki skýr tengsl milli aldurs og afstöðu. Sé litið á búsetu eru 69 prósent Vestfirðinga hlynnt því að seinka klukkunni en minnstur stuðningur er á Austurlandi þar sem 51 prósent er því fylgjandi.

Netkönnun Zenter var framkvæmd á tímabilinu 18.-22. janúar. Alls voru 3.100 manns í úrtakinu en svarhlutfallið var 41,5 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×