Körfubolti

Benedikt: Ég er hvorki vitleysingur né veruleikafirrtur

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Benedikt þjálfar nú lið KR.
Benedikt þjálfar nú lið KR. vísir/stefán
Benedikt Guðmundsson þjálfari KR var að sjálfsögðu svekktur eftir tap liðsins gegn Val en var samt sem áður mjög ánægður með baráttuna hjá sínu liði.

 

„Það var ýmislegt sem gekk í þessum leik. Ég segi þetta ekki oft eftir tap en ég er ógeðslega ánægður með mitt lið í þessum leik. Við töpum hérna með 12 stigum en þrátt fyrir það sýnum við frábæra baráttu.”

 

„Það kannski gekk ekki allt upp en stelpurnar eiga mikið hrós skilið fyrir frammistöðuna í kvöld.”

 

Hann segist ekki vera neinn vitleysingur og veit það að til að vinna lið eins og Val þarf mjög mikið að ganga upp.

 

„Þetta er svolítið tvíþætt, keppnismaðurinn í mér er drullusvekktur með tap en ég er samt enginn vitleysingur og ekki veruleikafirrtur heldur. Ég veit hvað við erum að eiga við hérna og það vita allir að Valur er að fara klára þetta mót.”

 

„Þær tapa örugglega ekki mörgum leikjum, mesta lagi einum og þetta er frábært lið sem við erum að eiga við og Helena er bara svo mörgum númerum fyrir ofan þessa deild að það hálfa væri hellingur en við reyndum og þegar upp er staðið gætum við verið eina liðið sem vinnur Val með Helenu innanborðs þegar tímabilið verður gert upp.”

 

Það er mikil breidd í liði Vals og Benni yrði alls ekkert hissa ef Valur myndi hreinlega vinna alla titlana sem eru í boði í ár.

 

„Það er endalaus breidd hjá þeim. Þetta eru allt stelpur sem hafa sannað sig og eru hörkugóðar. Frábær metnaður í Val og það er búið að setja saman alveg drullugott lið með gríðarlega efnilegan þjálfara í Darra þannig það er allt til alls til að hreinlega vinna allt sem er í boði. Taka eitt grand slam,” sagði Benni að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×