Þetta sagði Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Þar kom fram að þetta nýja hverfaskipulag væri algjör viðsnúningur í viðhorfi borgarinnar til þess að breyta bílskúrum í íbúðir. Gunnlaugur Helgason, annar af þáttastjórnendum Bítisins, sagði í þættinum að hann hefði heyrt það í gegnum tíðina að byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar hefði aldrei samþykkt umsóknir um að breyta bílskúrum í íbúðir.
Sigurborg sagði þetta rétt og gekkst við því að um U-beygju væri að ræða í stefnu borgarinnar. Þrátt fyrir að ekki hefðu fengist leyfi fyrir að breyta bílskúrum í íbúðir þá væri raunveruleikinn sá að borgarbúar geri það engu að síður í mörgum tilvikum og því sé eðlilegra að festa þá heimild í reglugerð.
Hverfisskipulagið er nýtt skipulagstæki sem einfaldar íbúum að gera breytingar á fasteignum sínum í eldri hverfum borgarinnar og opnar á möguleika á verulegri fjölgun lítilla íbúða í grónum hverfum.
Verður skipulagið tekið fyrir í borgarráði í dag.

Þegar hverfisskipulagið hefur öðlast gildi þá geta íbúar slegið heimilisfang sitt í hverfasjána og fengið þá upp allar heimildir á sínu húsnæði og hvernig þeir bera sig að við að sækja um heimildir.
Hún fullyrti að aldrei hefði verið haft jafn mikið samráð við íbúa í einu skipulagsverkefni. Haldnir voru margir fundir með mismunandi rýnihópum en einnig voru svokallaðir eldhugar í hverfinu fengnir að borðinu.
Hún sagði almenna sátt með þetta skipulag því ekki vær verið að neyða neinn til breytinga heldur geta íbúar sótt um á sínum forsendum.
Nýja skipulaginu er ætlað að stuðla að verulegri fjölgun íbúða en samkvæmt áætlunum verður hægt að fjölga íbúðum í þessum þremur hverfum um 1.989.
Í fyrsta lagi er um að ræða viðbætur á lóð sem geta verið viðbyggingar, ofanábyggingar eða aukabyggingar. Síðan verður leyft að skipta stórum eignum upp í smærri einingar og búa til fleiri íbúðir þar sem aðstæður leyfa. Þá verður hægt að breyta atvinnuhúsnæði, bílskúrum eða geymslum í íbúðir.