Leit hefur verið hætt að flugvélinni sem hvarf yfir Ermarsundi á mánudaginn með tvo innanborðs. Argentínski knattspyrnumaðurinn Emiliano Sala og flugmaðurinn David Ibbotson voru um borð í vélinni, en Sala hafði nýverið gengið til liðs við Cardiff City frá franska liðinu Nantes.
Lögreglan á Guernsey greindi frá því nú síðdegis að eftir þriggja daga leit hafi henni nú verið hætt.
Í frétt BBC kemur fram að Romina Sala, systir Emiliano, hafi biðlað til breskra yfirvalda að halda leitinni áfram. „Í hjarta mínu veit ég að Emiliano er enn á lífi.“
Talsmaður yfirvalda segir að dýpið á hafsvæðinu þar sem síðast var vitað um ferðir vélarinnar, í um 700 metra hæð, sé um hundrað metrar.
Sala varð dýrasti leikmaðurinn í sögu Cardiff um síðustu helgi þegar þeir keyptu hann á 15 milljónir punda. Hann hafði snúið aftur til Nantes til að kveðja fyrrverandi liðsfélaga en var svo á leið aftur til Wales.
Fjölmiðlar í Argentínu segja að hinn 28 ára Sala hafi sent fjölskyldu sinni skilaboð í gegnum Whatsapp forritið skömmu áður en vélin hvarf. Sagðist hann logandi hræddur, enda væri eins og vélin væri að detta í sundur.
Björgunarlið hefur leitað á um 4.400 ferkílómetra svæði á sjó og landi, meðal annars á og í kringum eyjarnar Burhou, Casquets og Alderney.
Svíþjóð
Ísland