Innlent

Lögreglumaður sakaður um að beita ólögmætum aðferðum við að þvinga bíl af veginum

Birgir Olgeirsson skrifar
Ökumaðurinn brotnaði á hálslið og hlaut langt sár á hnakka sem var opið inn að höfuðkúpu.
Ökumaðurinn brotnaði á hálslið og hlaut langt sár á hnakka sem var opið inn að höfuðkúpu. Vísir/Vilhelm
Embætti héraðssaksóknara hefur ákært lögreglumann á Suðurlandi fyrir gáleysi og brot í starfi með því að hafa ekki beitt lögmætri aðferð þegar hann þvingaði bíl út af Þjórsárdalsvegi í maí í fyrra.

Lögreglumaðurinn hafði veitt bifreið eftirför vegna umferðar- og hegningarlaga bílstjórans. Ók lögreglumaðurinn þrívegis á vinstra afturhorn bifreiðarinnar á allt að 95 kílómetra hraða á klukkustund.

Samkvæmt ákærunni hafði þetta þær afleiðingar í för með sér að ökumaðurinn missti stjórn á bílnum sem snerist á veginum, fór út af honum, valt tvær veltur, og endaði á réttum kili.

Af þessu hlaut ökumaðurinn brot á sjöunda hálslið og tíu sentímetra langt sár á hnakka sem var opið inn að höfuðkúpu.

Teljast brot lögreglumannsins varða við þrjár greinar almennra hegningarlaga og getur þyngsta refsing varðað allt að fjögurra ára fangelsivist, annars vægari fangelsivist eða sektum.

Er lögreglumaðurinn starfandi við embætti lögreglustjórans á Suðurlandi, að því er fram kemur á vef mbl.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×