Körfubolti

Toppliðið búið að skora færri stig en botnliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kiana Johnson er frábær leikstjórnandi.
Kiana Johnson er frábær leikstjórnandi. fréttablaðið/sigtryggur ari
Það er óhætt að segja að góður varnarleikur sé öðru fremur lykillinn að því að nýliðar KR eru á toppnum eftir fimmtán umferðir í Domino´s deild kvenna í körfubolta.

KR-konur unnu fjórða leikinn í röð í gærkvöldi og eru með tveggja stiga forskot á toppnum eftir tólf sigra í fyrstu fimmtán umferðunum.

KR-liðið er samt „bara“ að skora 73,1 stig að meðaltali í leik sem er mun minna en næstu lið á eftir. Keflavík hefur skorað 81,6 sitg í leik, Valur er með 78,5 stig í leik og Snæfellsliðið hefur skorað 77,7 stig í leik.

KR-liðið er reyndar aðeins í 5. sæti yfir skoruð stig í deildinni því botnlið Breiðabliks (73,3 stig í leik) hefur einnig skorað fleiri stig en KR í vetur.

Blikarkonur hafa aðeins unnið 1 af 15 leikjum sínum í deildinni í vetur en hafa samt skorað fleiri stig en topplið deildarinnar.

KR er aftur á móti eina liði í deildinni sem hefur fengið á sig undir 70 stig í leik. Mótherjar KR-liðsins hafa aðeins skorað 68,3 stig að meðaltali í leik en í öðru sætinu er Snæfell með 71,3 stig á sig í leik.

Kiana Johnson og Orla O'Reilly hafa verið frábærar hjá KR í vetur en þessir tveir leikmenn eru saman með 44,2 stig, 20,5 fráköst, 9,9 stoðsendingar og 7,3 stolna bolta að meðaltali í leik.

Kiana Johnson var með 35 stig, 16 fráköst og 5 stoðsendingar í sigrinum á Haukum í gær og Orla O'Reilly bætti þá við 26 stigum, 6 fráköstum og 6 stoðsendingum. Saman nýttu þær 6 af 9 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og settu niður öll 19 vítin sín.

Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, er þekktur fyrir að finna erlenda gullmola og hann sannaði það heldur betur með því að fá þessar tvær til liðs við KR-liðið í vetur.



Flest stig að meðaltali í leik í Domino´s deild kvenna:

(Innan sviga er sæti liðsins í deildinni)

1. Keflavík (2. sæti) 81,6

2. Valur (4. sæti) 78,5

3. Snæfell (3. sæti) 77,7

4. Breiðablik (8. sæti) 73,3

5. KR (1. sæti) 73,1

6. Stjarnan (5. sæti) 71,2

7. Skallagrímur (6. sæti) 70,2

8. Haukar (7. sæti) 68,7




Fleiri fréttir

Sjá meira


×