Erlent

Hafa fengið ábendingar um mennina á upptökunum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mennirnir þrír sem lögregla vill ná tali af.
Mennirnir þrír sem lögregla vill ná tali af. Mynd/Samsett
Norsku lögreglunni hefur fengið ábendingar um mennina sem sáust á upptökum öryggismyndavéla fyrir utan vinnustað Tom Hagen daginn sem eiginkonu hans, Anne-Elisabeth Falkevik Hagen, var rænt. Þetta sagði lögreglustjórinn Tommy Brøske á blaðamannafundi vegna mannránsins sem haldinn var í Ósló í dag.

Brøske sagði í raun engar nýjar vendingar hafa orðið í málinu síðan í gær en þá birti lögregla myndbönd úr öryggismyndavélum fyrir utan skrifstofu Hagen frá 31. október síðastliðnum. Lögregla óskar enn eftir að ná tali af mönnunum þremur sem sjást á myndböndunum, tveir þeirra eru fótgangandi en sá þriðji hjólandi.

Anne-Elisabeth Falkevik Hagen var rænt af heimili sínu þann 31. október síðastliðinn. Mannræningjarnir hafa krafist yfir milljarðs íslenskra króna í órekjanlegri rafmynt.
Að sögn Brøske hefur lögreglu ekki tekist að bera kennsl á mennina. Hins vegar hafi borist ábendingar í tengslum við tvo þeirra. Rannsókn lögreglu hefur einkum beinst að hinum tveimur fótgangandi en Brøske sagði á blaðamannafundinum í dag að ferðalag þeirra fyrir utan skrifstofuna geti bent til þess að mannræningjarnir hafi vaktað vinnustaðinn.



Sjá einnig: Mannránið í Noregi: „Það veit nánast enginn hvaða fólk þetta er“


Í gær greindi lögregla frá því að borist hefðu yfir 100 ábendingar vegna mannránsins í gær og í dag hafði lögregla fengið 150 í viðbót. Þær snúa til að mynda að mannaferðum í og við skrifstofu Hagen, auk heimilisfanga og bifreiða.

Brøske lagði áherslu á að almenningur héldi áfram að senda inn ábendingar um grunsamlegt athæfi um það leyti sem Falkevik Hagen var rænt af heimili sínu í Fjellhamar í Lørenskógi. Þá sagði hann rannsókn lögreglu í og við húsið enn standa yfir.

Þá sagði Brøske að lögregla hefði engar vísbendingar um það hvar Anne-Elisabeth væri niðurkomin. Vel gæti verið að farið hefði verið með hana úr landi en lögregla biður norsku þjóðina þó um að vera vakandi fyrir stöðum sem gætu hentað sem felustaðir.


Tengdar fréttir

Mannránið í Noregi: „Það veit nánast enginn hvaða fólk þetta er“

Þrátt fyrir að vera ein ríkasta fjölskylda Noregs virðist fjölskylda Tom og Anne-Elisabeth Falkevik Hagen ekki hafa verið mjög áberandi í norsku þjóðlífi. Ekkert hefur spurst til Anna-Elisabeth í um tíu vikur eftir að henni var rænt af heimili í Fjellhamar í Lørenskógi, austur af Ósló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×