Sport

Sara svakaleg í hringjunum og klár í fjörið í Miami

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir með íslenska fánann eftir mótið í Dúbaí.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir með íslenska fánann eftir mótið í Dúbaí. Mynd/Instagram/sarasigmunds
Tilraun númer tvö er nú framundan hjá Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur við laust sæti á heimsleikana í CrossFit 2019 og nú er hún komin í fjörið í Miami.

Framundan er hörð keppni á hinu árlega Wodapalooza CrossFit móti í Miami en að þessu sinni er aðeins meira undir en síðustu ár.

CrossFit samtökin ákváðu að breyta til í ár og í stað hinnar hefðbundnu undankeppni þá mun nú eitt sæti á heimsleikana í karla-, kvenna- og liðaflokki vera í boði fyrir sigurvegara á fimmtán tilteknum mótum. Eitt af þeim mótum verður haldið í Reykjavík í maí.

Wodapalooza CrossFit mótið fer fram í Miami á Flórída 17. til 20. janúar og er Ragnheiður Sara eini íslenski keppandinn í kvennaflokki. Íslendingar eiga aftur á móti fulltrúa í liðakeppni mótsins en á því er keppt í öllum aldursflokkum.

Wodapalooza mótið hefur heppnast mjög vel síðustu ár og það er mikið fjör og stemmning á svæðinu enda samankomin fjöldi fólks allstaðar að úr heiminum sem lifir og hrærist í CrossFit.

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir var nálægt því að tryggja sér farseðilinn á heimsleikana í CrossFit í fyrsta mótinu sem bauð upp á laust sæti á heimsleikunum í Madison í ágúst. Það fór fram í Dúbaí í desember og endaði Sara þá í þriðja sæti en aðeins tólf stigum á eftir Samöntu Briggs.

Mattew Fraser, Samantha Briggs og lið Invictus tryggðu sér sæti á heimsleikunum í ágúst með sigri á mótinu í Dúbaí og geta því strax stillt sinn undirbúning á að toppa í ágúst. Nú eru fjórtán sæti eftir í hverjum flokki. 

Ragnheiður Sara hefur verið á uppleið eftir meiðslin á heimsleikunum í fyrra og það verður fróðlegt að sjá hvort henni takist að tryggja sér sætið í Miami. Hún bauð að minnsta kosti upp á eina „ofuræfingu“ á Instagram síðu sinni í vikunni.

Ragnheiður Sara setti þar inn skemmtilegt myndbandi af sér þar sem hún sýnir mikinn styrk með því að lyfta sér hvað eftir annað upp í hringjunum og það í mikilli hæð.

Það er eitt að ná svona „upprisu“ í hringjum einu sinni hvað þá að gera það margoft í röð eins og Sara gerir í þessu myndbandi sem má sjá hér fyrir neðan. Það er ekki hægt að sjá annað en hún sé klár í fjörið í Miami sem hefst síðan á morgun.








Tengdar fréttir

Sara: Gott að vera komin aftur

Íslenska CrossFit stjarnan Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir stimplaði sig aftur inn meðal þeirra bestu með því að ná þriðja sæti á gríðarlega sterku CrossFit móti í Dúbaí um helgina.

Björgvin fékk silfur og Sara brons

Björgvin Karl Guðmundsson endaði í öðru sæti á alþjóðlega CrossFit mótinu í Dúbaí sem var að ljúka. Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir hreppti bronsið.

Björgvin Karl: Við víkingarnir stöndum saman

"Ég er aldrei ánægður með annað sætið en geri undantekningu á því núna,“ skrifaði Björgvin Karl Guðmundsson inn á Instagram síðu sína eftir frábæra frammistöðu sína um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×