Innlent

Miðflokksmenn mæta Klaustursupptökum af fullri hörku

Jakob Bjarnar skrifar
Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð gefa ekkert fyrir Klaustursupptökurnar og á þeim forsendum neita þeir að mæta á nefndarfundinn.
Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð gefa ekkert fyrir Klaustursupptökurnar og á þeim forsendum neita þeir að mæta á nefndarfundinn.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður þess sama flokks neituðu að mæta á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þeir sendu þess í stað harðorðar yfirlýsingar þar sem þeir fordæmdu hinar þekktu upptöku af Klaustur bar afdráttarlaust.

Fundurinn stendur nú yfir en hann hófst á því að Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar, las upp yfirlýsingar þeirra Sigmundar Davíðs og Gunnars Braga.

Ef marka má þær yfirlýsingar er ljóst að þeir munu mæta upptökunum og afleiðingum þeirra, sem meðal annars fólust í því að Gunnar Bragi og Bergþór Ólason eru nú í leyfi frá þingstöfum.

Gunnar Bragi segist ekki ætla að taka þátt í „sýningu“

Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar og eftirlitsnefndar, staðfestir að hvorki Gunnar Bragi né Sigmundur Davíð muni mæta á fundinn. Las hún upp yfirlýsingar frá þeim tveimur í upphafi fundar.

„Tilefnið er ólögmæt hljóðritun af ummælum sem ég lét falla í trúnaðarspjalli á veitingastað í borginni. Ég hef á opinberum vettvangi viðurkennt að ég hafi farið með rangt mál sem eigi ekki við rök að styðjast. Við það hef ég engu að bæta,“ sagði í yfirlýsingu Gunnars Braga.

Hann segist ekki ætla sér að taka þátt í „sýningu“ sem sé haldinn í annarlegum tilgangi til þess að koma höggi á pólitíska andstæðinga.



Sigmundur segir óforsvaranlegt að halda fundinn

„Ég tel óforsvaranlegt að formaður nefndarinnar ætli að halda fund til að ræða ályktanir sem að hún vill sýnilega draga af illa sundurklipptum hljóðklippum af veitingahúsaspjalli sem aflað var með refsiverðum hætti,“ sagði í yfirlýsingu Sigmundar Davíðs.

„Ógjörningur er að segja til um hvað var klippt úr, hvað var soðið saman,“ sagði Sigmundur Davíð í sinni yfirlýsingu.

Fundurinn stendur yfir og er fylgst með honum í beinni útsendingu hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×