Í grein sem birtist á vef jyllands-posten.dk er fjallað um ýmiss konar kúra sem hafa verið í gangi. Sagt er frá því að Miðjarðarhafsmataræði sé í fyrsta sæti á meðal yfir fjörutíu kúra hjá bandaríska vefmiðlinum usnews.com. Þar kemur fram að Miðjarðarhafskúrinn sé áhrifaríkur og heilsusamlegur auk þess sem auðvelt er að fara eftir honum. Í þessu mataræði er áherslan á ávexti, grænmeti, fisk og ólífuolíu sem þykir skynsamlegt að mati sérfræðinga.
Kílóin geta læðst aftan að fólki smám saman og erfitt getur verið að losa sig við þau. Í boði eru alls kyns kúrar, steinaldarmataræði, paleo, lágkolvetniskúrar og ýmiss konar detox safakúrar svo eitthvað sé nefnt.

Jyllands Posten spurði næringarsérfræðing við háskólann í Kaupmannahöfn, Arne Astrup, um Miðjarðarhafsmataræði. Hann svaraði að gott mataræði eins og tíðkast við Miðjarðarhafið geti haft fyrirbyggjandi áhrif á sykursýki og hjartasjúkdóma. „Þetta er mataræði sem auðvelt er að fara eftir og hefur enga öfga. Jafnvægið skiptir máli í mataræðinu, ekki boð og bönn líkt og tíðkast í mörgum öfgakúrum. Það er heldur engin lausn að svelta sig til að léttast. Flestir þola allan mat og það eru ekki heilbrigðissjónarmið að taka út fæðutegundir líkt og kjöt, mjólkurvörur eða annað,“ segir hann. „Fjölbreytt mataræði er best. Ef þú tekur út allt kjöt þarftu að taka prótín og járn með öðrum hætti.“
Í öðru sæti listans yfir bestu kúrana er DASH-kúrinn. Hann er hannaður til að koma í veg fyrir sykursýki og of háan blóðþrýsting. Engu að síður býður hann fjölbreytt mataræði sem byggist á ávöxtum og grænmeti en jafnframt er pláss fyrir steik eða kjúkling. Í DASH er lögð áhersla á ávexti, grænmeti, heilkorn, fitulaust kjöt, fitu- og sykurskertar mjólkurvörur. Fólk sem tileinkar sér DASH mataræði verður þó að sleppa öllum sykruðum drykkjum og sælgæti. Þá þarf að forðast saltaðar matvörur.

Þótt mataræðið sé mikilvægt er ekki síður nauðsynlegt að hreyfa sig í að minnsta kosti tvo og hálfan tíma á viku. Hreyfingin getur þó verið margvísleg, allt frá göngutúr eða garðvinnu upp í erfiða leikfimitíma.
„Hafa ber í huga að það passa ekki endilega sömu kúrar fyrir alla. Fólk er misjafnt. Það góða við Miðjarðarhafsfæði er að það hentar flestum,“ segir Arne og bendir á nokkrar góðar reglur í mataræðinu.
1. Veljið fjölbreyttan mat og fæðutegundir eftir þeirra árstíðum.
2. Veljið mat úr heimabyggð eða héraði.
3. Leggið áherslu á gott hráefni, ávexti, grænmeti, fisk og kjöt.
4. Notið ferskar kryddjurtir til að bragðbæta matinn.
5. Borðið minna af rauðu kjöti og veljið ávallt fersk og óunnin matvæli.