Erlent

Rannsaka hnífsstungu í Ósló sem hryðjuverk

Andri Eysteinsson skrifar
Marie Benedicte Bjørnland yfirmaður PST, öryggissveitar norsku lögreglunnar, stóð fyrir svörum blaðamanna í dag.
Marie Benedicte Bjørnland yfirmaður PST, öryggissveitar norsku lögreglunnar, stóð fyrir svörum blaðamanna í dag. EPA/Frederik Hagen
Hnífsstunga í kjörbúð í Ósló síðastliðinn fimmtudag er nú rannsökuð sem mögulegt hryðjuverk. Reuters hefur það eftir Marie Benedicte Bjørnland, yfirmanni öryggissveitar norsku lögreglunnar.

Tvítugur rússneskur karlmaður var handtekinn á fimmtudag, stuttu eftir að hann hafði stungið konu sem stóð við afgreiðsluborð kjörbúðar í Ósló.

Bjørnland greindi frá málinu á blaðamannafundi í dag. Þar kom fram að við yfirheyrslur yfir manninum hafi hann sjálfur lýst því yfir að hann hafi viljað drepa fjölda fólks og lýsti hann sjálfur verknaðnum sem hryðjuverki.

Bjørnland sagði manninn hafa komið til Óslóar á fimmtudaginn en hann hafði ferðast frá Rússlandi í gegnum Svíþjóð. Norska lögreglan rannsakar nú hvort maðurinn hafi einhver tengsl við þekkta hryðjuverkahópa.

Konan sem varð fyrir árásinni á fimmtudaginn liggur nú þungt haldin á sjúkrahúsi í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×