Innlent

Jensína elst allra á Íslandi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jensína Andrésdóttir, fyrir miðju, fæddist 10. nóvember árið 1909, fyrir rúmum 109 árum. Hér er hún í viðtali á 109 ára afmælisdaginn sinn.
Jensína Andrésdóttir, fyrir miðju, fæddist 10. nóvember árið 1909, fyrir rúmum 109 árum. Hér er hún í viðtali á 109 ára afmælisdaginn sinn. Vísir
Jensína Andrésdóttir varð í dag 109 ára og 70 daga og sló þar með Íslandsmet í langlífi. Jensína er fædd þann 10. nóvember árið 1909 á Þórisstöðum við Þorskafjörð í Austur-Barðastrandarsýslu. Þetta kemur fram á Facebook-síðunni Langlífi sem, eins og nafnið gefur til kynna, fjallar um langlífa Íslendinga, en einnig um haldgóð hjónabönd og stóra systkinahópa svo eitthvað sé nefnt.

Á síðunni kemur fram að Jensína hafi verið vinnukona á Vestfjörðum á yngri árum, áður en hún flutti til Reykjavíkur um miðja síðustu öld, þar sem hún vann meðal annars við ræstingar. Þá hefur hún dvalið á Hrafnistu í Reykjavík í rúma tvo áratugi.

Jensína er langlífasta manneskjan til þess að búa hér á landi en þó er ein íslensk kona sem hefur lifað lengur. Það var Guðrún Björnsdóttir sem náði 109 ára og 310 daga aldri. Hún flutti til Kanada þegar hún var aðeins þriggja ára gömul.

Fyrri methafi var Sólveig Pálsdóttir frá Höfn, en hún var 109 ára og 69 daga þegar hún lést árið 2006.


Tengdar fréttir

Elsti núlifandi Íslendingurinn 109 ára í dag

Blásið var til afmælis á Hrafnistu í dag þegar elsti núlifandi Íslendingurinn varð 109 ára. Ættingjar hennar þakka göngutúrum háum aldri og því að hún hafi aldrei verið við karlmann kennd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×