Erlent

Hnífs­tungu­á­rás í Manchester rann­sökuð sem hryðju­verk

Atli Ísleifsson skrifar
25 ára karlmaður var handtekinn vegna árásarinnar.
25 ára karlmaður var handtekinn vegna árásarinnar. AP/Sam Clack
Lögregla í Bretlandi rannsakar hnífstunguárás á Victoria-lestarstöðinni í Manchester í gærkvöldi sem hryðjuverkaárás. Karlmaður stakk þar þrjá, þar af einn lögreglumann.

BBC  segir frá því að 25 ára karlmaður hafi verið handtekinn vegna málsins. Tveir hnífar mannsins fundust við árásarstaðinn og þá hefur lögregla framkvæmt húsleit á heimili mannsins í hverfinu Cheetham Hill.

Lögregla segir að þeir sem fyrir árásinni urðu séu með alvarlega áverka, en eru þó ekki í lífshættu. Kona á sextugsaldri var með áverka í andliti og kvið og karlmaður á sextugsaldri var sömuleiðis með áverka á kvið. Þá var lögreglumaðurinn – karlmaður á fertugsaldri – stunginn í öxl. Hann hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi.

Lögregla lokaði lestarstöðinni eftir árásina en hún hefur nú verið opnuð á ný. Hafa smávægilegar seinkanir orðið á lestarferðum vegna málsins. Árásin átti sér stað á sporvagnapalli.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir í tísti að hugur hennar sé hjá þeim særðust í árásinni og þá þakkaði hún viðbragðsaðilum fyrir sín störf.

Framleiðandi hjá BBC varð vitni af árásinni og segir að árásarmaðurinn hafi hrópað nafn „Allah“ á meðan á árásinni stóð, auk þess að úthúða stjórnvöldum á Vesturlöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×