Innlent

Magnús áfram útvarpsstjóri

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri RÚV.
Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri RÚV. Fréttablaðið/Stefán.
Magnús Geir Þórðarson verður áfram útvarpsstjóri næstu fimm árin en hann hefur gegnt starfinu síðan í mars 2014. Þetta staðfestir Kári Jónasson, stjórnarformaður Ríkisútvarpsins, í samtali við Fréttablaðið. Kjarninn greindi fyrst frá.

Ráðningartími útvarpsstjóra er fimm ár en stjórn RÚV hefur heimild til að endurráða útvarpsstjóra til fimm ára aftur, en þó aðeins einu sinni. Það ákvæði hefur stjórnin nýtt sér.

„Þetta er þannig að ef stjórnin vill ekki framlengja við hann samninginn þá þarf að segja honum upp með tólf mánaða fyrirvara og hefði þurft að gera það í apríl á síðasta ári,“ segir Kári. Þar sem staðan var ekki auglýst þá framlengist ráðningin um önnur fimm ár. Hann segir stjórnina mjög ánægða með störf Magnúsar Geirs sem útvarpsstjóra.

„Já, hann er öflugur og er að gera marga góða hluti og það er margt í pípunum í Efstaleiti sem kemur í ljós á árinu.“

Aðspurður segir Kári að kaup og kjör útvarpsstjóra séu þau sömu og áður en laun hans voru hækkuð af stjórninni síðast árið 2017 og eru um 1.800 þúsund krónur á mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×