Erlent

Kim í opinberri heimsókn í Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un, þegar hann flutti nýársávarp í Norður-Kóreu.
Kim Jong Un, þegar hann flutti nýársávarp í Norður-Kóreu. AP/KCNA
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, er nú staddur í Kína. Xi Jinping, forseti Kína, bauð Kim til Peking og mun hann vera þar til tíunda janúar. Einræðisherrann ferðaðist til Kína með lest en afar sjaldgæft er að hann fari frá Norður-Kóreu.

Kim fór til Singapúr að hitta Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í fyrra en að öðru leyti hefur hann ekki ferðast til annars ríkis en Kína síðan hann tók við völdum í Norður-Kóreu. Þetta er í fjórða sinn sem Kim fer á fund Xi og áttu allar hinar ferðirnar þrjár sér stað í fyrra.

Yonhap fréttaveitan segir lest Kim hafa farið yfir landamærin í borginni Dandong. Þar hafi öryggisgæsla verið gífurleg og vegum lokað víða.



Kim lýsti því yfir um áramótin að hann vonaðist til þess að hitta Trump á nýjan leik á þessu ári. Hann varaði þó yfirvöld Bandaríkjanna við því að reyna á þolinmæði Norður-Kóreu með viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×