Frank Magnitz, þýskur þingmaður þjóðernisflokksins Valkosts fyrir Þýskaland (AfD), varð fyrir alvarlegri líkamsárás í miðborg þýsku borgarinnar Bremen í gær. Breska dagblaðið The Guardian hefur eftir lögreglu að ráðist hafi verið á þingmanninn vegna stjórnmálaskoðana hans.
Flokksdeild AfD í Bremen birti mynd af Magnitz á Facebook-síðu sinni í gær. Á myndinni virðist Magnitz liggja í sjúkrarúmi, alblóðugur með stóran skurð á enninu. Í færslunni segir að þrír grímuklæddir menn hafi ráðist á hann.
„Þeir börðu hann með viðarbita þangað til hann missti meðvitund og spörkuðu hann svo í jörðina,“ segir í færslunni. Þá þakkar flokkurinn verkamanni sem gekk fram á árásina og skarst í leikinn.
Flokkurinn segist einnig ætla að fylgjast náið með viðbrögðum annarra flokka á þýska þinginu næstu daga. Þá verði einblínt á árásir af vinstri væng stjórnmálanna gegn þeim hægri, sem aðrir flokkar veigri sér við að fordæma og gangi jafnvel svo langt að styðja.
Forystumaður AfD, Jörg Meuthen, kallaði atvikið hryðjuverkaárás í Facebook-færslu í gær. Þá sagðist hann í svo miklu áfalli vegna árásarinnar að hann gæti ekki hugsað sér að tjá sig frekar um hana að svo stöddu.
Magnitz hefur leitt AfD í Bremen síðan árið 2015 og setið á þingi fyrir flokkin síðan árið 2017. Hann hefur sett sig upp á móti innflytjendum frá múslimalöndum í Þýskalandi og er andstæðingur evrunnar. AfD er þriðji stærsti flokkurinn á þýska þinginu eftir kosningarnar árið 2017.
Við notum vefkökur til að safna og greina upplýsingar um notkun og virkni á Vísi. Einnig til að geta notað lausnir frá samfélagsmiðlum, bæta efni og birta viðeigandi markaðsefni.