Erlent

Þreifa fyrir sér um að fresta útgöngudagsetningunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Veggmynd af fána Evrópusambandsins í enska bænum Dover.
Veggmynd af fána Evrópusambandsins í enska bænum Dover. Vísir/EPA
Breska dagblaðið The Telegraph heldur því fram að ríkisstjórn Theresu May forsætisráðherra þreifi nú fyrir sér hjá fulltrúum Evrópusambandsins um að fresta útgöngunni af ótta við að útgöngusamningur náist ekki fyrir áætlaðan tíma.

Bretar ganga að óbreyttu úr Evrópusambandinu 29. mars. Erfiðlega hefur hins vegar gengið að ná samningi um hvernig samskiptum og viðskiptum skal háttað eftir þann tíma. Atkvæðagreiðslu um útgöngusamning May við ESB var frestað í desember þegar ljóst var að þingmenn myndu kolfella hann.

Telegraph vitnar til þriggja ónefndra evrópskra embættismanna um að breskir embættismenn hafi leitað hófanna í Evrópu um að framlengja 50. grein Lissabonsáttmálans sem kveður úr um skilyrði úrsagnar úr sambandinu.

May forsætisráðherra hefur ítrekað hafnað því að fresta útgöngunni, að sögn Reuters. Hún hefur hins vegar einnig varað við því að í óefni stefni um Brexit ef þingmenn hafna útgöngusamningi hennar.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafna því alfarið að til standi að fresta útgöngunni.

„Við yfirgefum Evrópusambandið 29. mars,“ segir Stephen Barclay, Brexit-ráðherra ríkisstjórnarinnar við Telegraph.


Tengdar fréttir

Theresa May segir Brexit jafnvel í hættu

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að útgangan úr Evrópusambandinu sé í hættu ef þingmenn styðji ekki Brexit-samkomulag hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×