Erlent

Ítalía og Pólland starfi saman til að breyta ESB

Atli Ísleifsson skrifar
Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, á fréttamannafundi í Varsjá í dag.
Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, á fréttamannafundi í Varsjá í dag. Getty
Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, vill að aðildarríki Evrópusambandsins þar sem hægristjórnir og popúlistaflokkar eru við völd taki höndum saman og fái sambandið til að breyta um stefnu.

„Við leggjum grunninn að nýju valdajafnvægi og nýrri orku í Evrópu, og Pólland og Ítalía munu klárlega leiða þetta nýja evrópska vor,“ sagði Salvini í dag, en hann heimsækir nú pólsku höfuðborgina Varsjá.

Ítalski innanríkisráðherrann mun þar hitta Jaroslaw Kaczynski sem stýrir pólska stjórnarflokknum Lög og réttlæti (PiS). Salvini segist vilja stefna að því að draga úr áhrifum Frakklands og Þýskalands innan sambandsins.

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, kveðst sammála þeirri gagnrýni sem fram hafi komið frá Ítölum. Segir hann sambandið mismuna aðildarríkjum og bendir á að framkvæmdastjórn sambandsins hafi komið í veg fyrir að upphaflegt fjárlagafrumvarp Ítalíustjórnar hafi náð fram að ganga.

Framkvæmdastjórnin sagði hallann of mikinn og brjóta í bága við reglur sambandsins um fjármál aðildarríkja. Skuldir Ítalíu eru þær næstmestu af öllum aðildarríkjum sambandsins.

Framkvæmdastjórn sambandsins dró fyrr á árinu Pólland fyrir Evrópudómstólinn vegna ákvörðunar þarlendra stjórnvalda að þvinga fjölda hæstaréttardómara á eftirlaun með því að lækka eftirlaunaaldur dómara. Var það sagt brot á reglum um sjálfstæði dómstóla. Pólsk stjórnvöld drógu á endanum ákvörðun sína til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×