Erlent

Segir ólíklegt að Brexit náist á réttum tíma verði samningur May ekki samþykktur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Liam Fox, ráðherra alþjóðaviðskipta.
Liam Fox, ráðherra alþjóðaviðskipta. Jack Taylor/Getty
Liam Fox, alþjóðaviðskiptaráðherra Bretlands, segir helmingslíkur á því að Bretland yfirgefi ekki Evrópusambandið í lok mars næstkomandi, verði drög Theresu May forsætisráðherra að útgöngusamningi Bretlands við Evrópusambandið ekki samþykkt af þinginu.

Í frétt BBC er haft eftir Fox að útganga Breta úr ESB væri aðeins „hundrað prósent tryggð“ ef þingmenn samþykki samninginn í núverandi mynd. Þá sagði hann að ef til þess kæmi að samningnum yrði hafnað, myndi það „mölbrjóta traustið sem ríkir milli kjósenda og þingsins.“

Upphaflega átti neðri deild þingsins (e. House of Commons) að greiða atkvæði um samninginn þann 11. desember en atkvæðagreiðslunni var slegið á frest þegar forsætisráðherranum varð ljóst að samningurinn yrði felldur á sannfærandi hátt í þinginu.

Neðri deild þingsins kemur næst saman 7. janúar eftir jólafrí. Áætlað er að atkvæðagreiðsla um Brexit-samninginn fari fram á fyrstu dögum þingstarfa næsta árs. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins hefur hvatt May til þess að stytta jólafrí þingsins, í því skyni að flýta fyrir atkvæðagreiðslunni um samninginn.

Fox varaði þingmenn við því að greiða atkvæði gegn samningnum og sagði meðal annars að þingmenn ættu að sjá sóma sinn í því að styðja forsætisráðherrann.

„Við getum verið alveg viss um það að ef við kjósum með samningi forsætisráðherrans þá eru hundrað prósent líkur á því að við göngum út [úr ESB] þann 29. mars. Ef ekki, þá held ég að ég geti ekki gefið þessu meira en helmingslíkur.

Þá sagði Fox að í hans augum væru það svik við kjósendur ef Bretland yfirgæfi ekki Evrópusambandið á tilsettum tíma.


Tengdar fréttir

Þjóðaratkvæðagreiðsla heldur ekki í boði hjá Corbyn

Leiðtogi Verkamannaflokksins vill að þingið fái að greiða atkvæði um Brexit-sáttmála Theresu May – sem hann veit að breska þingið mun kolfella – og boða sem fyrst til þingkosninga og freista þess í kjölfarið að fá hagstæðari samning við Evrópusambandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×