Erlent

Japanir sagðir ætla að segja skilið við Alþjóðahvalveiðiráðið

Atli Ísleifsson skrifar
Japanir hættu hvalveiðum í atvinnuskyni á níunda áratugnum í kjölfar ákvörðunar ráðsins að tímabundið banna allar slíkar viðar.
Japanir hættu hvalveiðum í atvinnuskyni á níunda áratugnum í kjölfar ákvörðunar ráðsins að tímabundið banna allar slíkar viðar. EPA
Stjórnvöld í Japan hyggjast draga sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Frá þessu greinir fréttastofan Kyodo News og vísar í heimildarmenn innan japönsku ríkisstjórnarinnar. Guardian  segir frá því að greint verði frá ákvörðuninni í lok mánaðar og munu Japanir ganga úr ráðinu á næsta ári.

Fyrr á árinu var tillögu japanskra stjórnvalda að heimila hvalveiðar í atvinnuskyni hafnað innan ráðsins.

Japanir hættu hvalveiðum í atvinnuskyni á níunda áratugnum í kjölfar ákvörðunar ráðsins að tímabundið banna allar slíkar viðar. Japanir hafa þó nýtt sér smugur í regluverkinu og stundað svokallaðar vísindaveiðar, sem margir vilja meina að sé skjól til að komast framhjá hvalveiðibanninu. Japanir hafa jafnframt lagt áherslu á að flestar hvalategundir séu ekki í útrýmingarhættu og að það sé órjúfanlegur hluti japanskrar matmenningar að snæða hvalkjöt.

Saga ráðsins

Ráðið var stofnað árið 1946 og var ætlað að vinna í þágu hagsmuna hvalveiðiþjóða en í kjölfar hnignunar hvalastofna urðu verndunar- og friðunarsjónarmið ríkjandi innan ráðsins. Helsta markmið ráðsins nú er að stuðla að vernd hvalastofna þannig að hvalaveiðar geti þróast með skipulegum hætti.

Hvalveiðibanninu var komið á árið 1982, en nokkur ríki, þeirra á meðal Ísland og Noregur, stunda þrátt fyrir það hvalveiðar í atvinnuskyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×