Viðskipti innlent

Segja um 120 missa vinnuna hjá Korninu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kornið rak 13 bakarí, 12 á höfuðborgarsvæðinu og eitt í Reykjanesbæ.
Kornið rak 13 bakarí, 12 á höfuðborgarsvæðinu og eitt í Reykjanesbæ. Vísir/Vilhelm
Öllum 120 starfsmönnum bakarískeðjunnar Kornsins mun hafa verið sagt upp. Ástæðan er talin vera sá rekstrarvandi sem fyrirtækið hefur staði frammi fyrir og fjallað hefur verið um í vikunni.

Erfiðlega hefur gengið að fá svör frá forsvarsmönnum keðjunnar um stöðuna sem upp er komin í rekstri fyrirtækisins. Talið er að Kornið hafi stöðvað alla framleiðslu sína og lokað útibúum, til að mynda í Reykjanesbæ, Grafarholti og í Árbæ.

Vísir fékk svo staðfest hjá Vinnumálastofnun í gær að stofnuninni hafi borist tilkynning um hópuppsögn frá fyrirtæki í matvælaiðnaði. Hvorki nafn fyrirtækisins né nákvæmur fékkst þó gefið upp.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins fullyrðir svo í dag að á annað hundrað starfsmönnum Kornsins hafi verið sagt upp. Vísar Ríkisútvarpið meðal annars til fréttar Vísis þess efnis að umræddum starfsmönnum fyrirtækisins hefði verið tjáð á miðvikudag að viðveru þess væri ekki lengur óskað.

Ríkisútvarpið segir starfsmennina hafa sett sig í sambönd við stéttarfélög sín vegna uppsagnanna og að allar líkur séu á því að þeir fá greidd laun um mánaðamótin.

Kornið var stofnað fyrir 37 árum en fyrir ári síðan, þegar Investor keypti reksturinn, var útibúum Kornsins fækkað vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×