Erlent

Kólumbískur eiturlyfjabarón skotinn til bana

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Teymi kólumbískra sérsveitarmanna varð Arizala að bana. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Teymi kólumbískra sérsveitarmanna varð Arizala að bana. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Camilo Mejia/Getty
Kólumbíski glæpaleiðtoginn og eiturlyfjabaróninn Walter Arizala, betur þekktur sem „Guacho“ var í dag skotinn til bana af teymi kólumbískra sérsveitarmanna eftir að hafa verið á flótta síðustu mánuði. Þetta tilkynnti Ivan Duque, forseti Kólumbíu, í sjónvarpsávarpi fyrr í dag.

Í fréttaflutningi Sky af málinu er Arizala kallaður „vinstrisinnaður uppreisnarmaður.“ Auk þess er hann sagður hafa verið leiðtogi tuga skæruliða sem áður voru hluti af FARC, vopnuðum uppreisnarhópi í Kólumbíu.

Í ávarpi sínu sagði Duque forseti að Arizala hafi verið drepinn í „hetjulegri aðgerð.“ Þá sagði hann að Kólumbíubúar gætu nú „sofið rótt því einn allra versti glæpamaður sem landið hefur alið af sér er fallinn frá.“

Arizala, sem var 29 ára þegar hann lést, er talinn hafa fyrirskipað morðið á þremur mönnum fyrr á þessu ári, blaðamanninum Javier Ortega, ljósmyndaranum Paul Rivas og bílstjóranum Efrain Segarra. Þeir störfuðu allir fyrir dagblaðið El Comercio, sem er frá Ekvador. Þeir voru að vinna að umfjöllun um ofbeldi á landamærum Kólumbíu og Ekvador þegar þeir voru myrtir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×