Erlent

Upp­reisn gyðinga í Var­sjá 1943: Síðasti eftir­lifandi upp­reisnar­maðurinn látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Fræg ljósmynd frá tíma uppreisnar gyðinga í Varsjá 1943.
Fræg ljósmynd frá tíma uppreisnar gyðinga í Varsjá 1943. Getty
Simcha Rotem, síðasti eftirlifandi uppreisnarmaðurinn sem þátt tók í uppreisn gyðinga í Varsjá árið 1943, er látinn. Hann andaðist í Jerúsalem í dag, 94 ára að aldri.

Rotem, sem einnig var þekktur sem Kazik, var fimmtán ára þegar nasistar réðust inn í Pólland árið 1939 og byrjuðu þeir fljótt að beita gyðingum ofsóknum.

Rotem var í hópi fámenns, illa búins hóps sem reis fyrst upp gegn nasistum í gyðingahverfinu eftir að hafa horft upp á fjöldaflutninga nasista á gyðingum út úr pólsku höfuðborginni. Sagðist hann síðar hafa viljað velja sjálfur hvernig hann myndi deyja.

Um mánuð tók fyrir nasista að bæla uppreisnina niður og er talið að um 13 þúsund gyðingar hafi legið í valnum þegar upp var staðið. Flestir uppreisnarmannanna voru drepnir, margir með því að vera brenndir lifandi, en aðrir voru sendir til útrýmingarbúðanna alræmdu í Treblinka.

Í frétt BBC segir að Rotem hafi aðstoðað fjölda fólks að flýja gyðingahverfið í gegnum holræsakerfi borgarinnar. Hann sneri svo aftur og tók þátt í uppreisn pólskra andspyrnumanna gegn nasistum 1944.

Simcha Rotem.Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×