Erlent

Drottningin biður þjóðina um að leggja á­greininginn til hliðar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Drottningin, sem er orðin 92 ára gömul, þegar viðtalið var tekið upp fyrr í mánuðinumþ
Drottningin, sem er orðin 92 ára gömul, þegar viðtalið var tekið upp fyrr í mánuðinumþ vísir/getty
Elísabet II Englandsdrottning biðlar til bresku þjóðarinnar í jólaávarpi sínu að leggja ágreininginn til hliðar. Ávarpinu verður sjónvarpað á morgun, jóladag, en það var tekið upp þann 12. desember.

Fjallað er um ávarpið á vef Guardian. Segir þar að á meðan þjóðin sé klofin vegna Brexit muni drottningin leggja áherslu á að nú sé meiri þörf en áður á hinum kristna boðskap um frið á jörðu og náungakærleika.

Þá mun drottningin einnig leggja áherslu á mikilvægi þess að byggja brýr á milli þeirra sem eru á öndverðum meiði og að það eigi að gera á kurteisan og yfirvegaðan máta.

„Þrátt fyrir að til staðar sé djúpur ágreiningur, þá er það alltaf gott fyrsta skref til að skilja hlutina betur að bera virðingu fyrir hinum einstaklingnum og koma fram við hann eins og manneskju,“ segir Elísabet í ávarpi sínu.

Sem þjóðhöfðingi þá er drottningin hlutlaus þegar kemur að stjórnmálum og viðrar sínar skoðanir ekki opinberlega.

Margir munu þó eflaust, að því er segir í umfjöllun Guardian, skilja orð hennar sem vísun í það eitraða andrúmsloft sem ríkir í opinberri umræðu í Bretlandi um útgöngu landsins úr Evrópusambandinu.


Tengdar fréttir

Herinn í viðbragðsstöðu vegna Brexit

Gert er ráð fyrir því að Bretar gangi úr Evrópusambandinu 29. mars með eða án samnings og ríkisstjórnin býr sig undir það versta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×