Tveir víetnamskir ferðamenn eru látnir og tólf aðrir eru særðir eftir að sprengja sprakk við rútu þeirra nærri pýramídunum í Gísa í Egyptalandi. Sprengjan er sögð hafa verið falin í vegg og sprungið þegar rútan ók fram hjá.
Fjórtán ferðamenn frá Víetnam voru í rútunni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Tveir Egyptar, þar á meðal ökumaðurinn, eru sagðir á meðal þeirra slösuðu. Ferðamennska er einn helsti atvinnuvegur Egyptalands.
Sprengjan sprakk í Marioutiya-götu í Haram-hverfi um klukkan 18:15 að staðartíma, um 16:15 að íslenskum tíma, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Egypska innanríkisráðuneytið segir að lögreglan rannsaki nú sprenginguna.
Vígamenn hafa áður látið til skarar skríða gegn erlendum ferðamönnum í Egyptalandi. Tveir þýskir ferðamenn voru stungnir til bana við hótel við Rauðahaf í fyrra.
