Erlent

Brasilískur heilari ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot

Kjartan Kjartansson skrifar
Faria hefur haldið fram sakleysi sínu þrátt fyrir ásakanir hundraða kvenna.
Faria hefur haldið fram sakleysi sínu þrátt fyrir ásakanir hundraða kvenna. AP/Marcelo Camargo
Saksóknarar í Brasilíu hafa ákært João Teixeira de Faria, þekktan heilara, fyrir nauðgun og kynferðisbrot. Hundruð kvenna hafa sakað Faria um að brjóta kynferðislega gegn sér.

Faria er þekktur í heimalandinu undir nafninu „Jóhannes guðs“ [por. João de Deus] og hefur starfað sem „kristilegur heilari“. Hann skaust fyrst rækilega upp á stjörnuhimininn þegar bandaríski spjallþáttastjórnandinn Oprah Winfrey fjallaði um hann árið 2013.

Hann var handtekinn fyrr í þessum mánuði og hefur setið í fangelsi síðan. Konurnar, sem eru af ýmsum þjóðernum, saka hann um að hafa brotið gegn sér þegar þær leituðu til hans um andlega leiðsögn eða líkamlega heilun.

Ákæran gegn honum í Goiás er vegna fjögurra nauðgana og einnar kynferðisárásar, að sögn Reuters. Faria hefur ítrekað haldið fram sakleysi sínu.

Heilarinn hélt því meðal annars fram að hann gæti gert aðgerðir á fólki með höndunum einum saman og án deyfingar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×