Sport

Björgvin Karl reynir að verja CrossFit-titilinn í Dúbaí

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson
Björgvin Karl Guðmundsson Mynd/Instagram/bk_gudmundsson
Alls þrír Íslendingar ásamt Frederik Aegidius, unnusta Annie Mist Þórisdóttur sem keppir fyrir hönd CrossFit Reykjavíkur, eru meðal þátttakenda á Dubai CrossFit Championship sem hefst í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í dag og lýkur á laugardaginn.

Þar mun Björgvin Karl Guðmundsson reyna að verja titil sinn í karlaflokki en Annie Mist mun ekki taka þátt og reyna að verja titilinn í kvennaflokki enda gekkst hún nýverið undir aðgerð til að rannsaka hjartsláttartruflanir sem háðu henni á heimsleikunum í ágúst.

Þetta er í sjöunda sinn sem mótið fer fram í Dúbaí og hafa íslensku aflraunakonurnar átt sérstaklega góðu gengi að fagna. Annie Mist hefur þrívegis fagnað sigri á mótinu en Sara Sigmundsdóttir vann fyrir tveimur árum.

Björgvin Karl og Frederik verða fulltrúar Íslands í karlaflokki á mótinu en í kvennaflokki verða það Eik Gylfadóttir og Sara sem keppa fyrir hönd Íslands.

Sigurvegarinn fær ekki aðeins myndarleg sigurverðlaun upp á fimmtíu þúsund dollara heldur einnig sæti á heimsleikunum næsta sumar. Mótið táknar að nýtt keppnis­tímabil er að hefjast í CrossFit og er þetta í fyrsta sinn sem sigurvegari mótsins öðlast um leið þátttökurétt á heimsleikunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×