Erlent

Theresa May stóðst atlöguna

Atli Ísleifsson skrifar
Theresa May tók við embætti forsætisráðherra og formanns Íhaldsflokksins af David Cameron árið 2016.
Theresa May tók við embætti forsætisráðherra og formanns Íhaldsflokksins af David Cameron árið 2016. EPA
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og formaður Íhaldsflokksins, stóðst atlöguna þegar þingmenn Íhaldsflokksins greiddu atkvæði um vantraust á hendur formanninum. Tvö hundruð þingmenn greiddu atkvæði gegn tillögunni, en 117 með.

Í morgun varð það gert ljóst að fleiri en 48 þingmenn Íhaldsflokksins höfðu óskað þess að vantraust yrði tekið á dagskrá innan þingflokksins og varð þingflokksformaður Íhaldsmanna við því.

May tilkynnti á þingflokksfundinum í kvöld að hún myndi hætta sem leiðtogi fyrir næstu þingkosningar sem munu að óbreyttu fara fram árið 2022.

May hefur verið undir miklum þrýstingi vegna Brexit-samningsins, en hún tilkynnti á mánudag að atkvæðagreiðslu um samninginn, sem átti að fara fram í gær, yrði frestað. Var þá ljóst að samningurinn yrði kolfelldur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×