Erlent

Lágmarkslaun á Spáni hækka um 22 prósent um áramót

Atli Ísleifsson skrifar
Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, greindi frá ákvörðun stjórnar sinnar fyrr í dag.
Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, greindi frá ákvörðun stjórnar sinnar fyrr í dag. Getty
Lágmarkslaun á Spáni munu hækka um 22 prósent um áramótin og er hækkunin sú mesta í landinu í rúm fjörutíu ár. Hækkunin felur í sér að launþegar sem þiggja lágmarkslaun sjá fram á að fá greiddar 900 evrur í mánaðarlaun, um 127 þúsund íslenskra króna, í stað 736 evra, eða 103 þúsund íslenskar.

Sósíalistinn Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, greindi frá breytingunni fyrr í dag þar sem hann sagði að „ríkt land gæti ekki verið með fátæka verkamenn“.

Í frétt BBC kemur fram að tilkynning Sánchez komi tveimur dögum eftir að Emmanuel Macron Frakklandsforseti tilkynnti um 100 evra hækkun á lágmarkslaunum í Frakklandi. Macron var með breytingunni að bregðast við margra vikna aðgerðum mótmælenda sem kennd hafa verið við gul vesti.

Lágmarkslaun á Spáni eru endurskoðuð á ári hverju, og er hækkunin nú umtalsvert hærri en verið hefur síðustu áratugina. Þannig nam hækkunin um síðustu áramót fjögur prósent. Hækkunin nú er sú hæsta frá árinu 1977, sama ár og fyrstu kosningarnar fóru fram eftir fall einræðisherrans Francisco Franco.

Lágmarkslaun á Spáni eru lægri en í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi en hærri en í fjölda annarra ESB-ríkja, meðal annars Portúgal, Grikklandi og Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×