Erlent

Leikkonan Sondra Locke er látin

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sondra Locke í kvikmyndinni The Gauntlet.
Sondra Locke í kvikmyndinni The Gauntlet. Vísir/getty
Bandaríska leikkonan Sondra Locke er látin 74 ára að aldri. Locke var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Heart Is a Lonely Hunter. Þá lék hún í sex kvikmyndum með fyrrverandi kærasta sínum, bandaríska leikaranum og leikstjóranum Clint Eastwood.

Locke lést á heimili sínu þann 3. nóvember síðastliðinn en ekki var greint frá andláti hennar fyrr en nú. Dánarorsök hennar er sögð hjartaáfall sem rakið er til krabbameins sem hún glímdi við fram til dauðadags.

Locke spratt fyrst fram á sjónarsviðið í kvikmyndinni The Heart Is a Lonely Hunter, sem jafnframt var hennar fyrsta kvikmyndahlutverk. Hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir leik sinn í myndinni, aðeins 24 ára gömul.

Locke og Eastwood árið 1982.Vísir/getty
Hún og Eastwood tóku saman árið 1975 og stóð samband þeirra yfir í þrettán ár. Þau léku saman í sex kvikmyndum, þar á meðal Josey Wales og Every Which Way But Loose.

Locke lætur eftir sig eiginmann, myndhöggvarann Gordon Anderson. Hann tilkynnti yfirvöldum um andlát hennar.

Hér að neðan má sjá atriði úr kvikmyndinni The Heart Is a Lonely Hunter sem frumsýnd var árið 1968.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×