Erlent

Á flótta sakaður um að hafa misnotað þrjú hundruð konur

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
JOao Faria er þekktur sem John of God.
JOao Faria er þekktur sem John of God. AP/Marcelo Camargo
Brasilískur andalæknir sem hefur verið sakaður um að misnota meira en þrjú hundruð konur er nú á flótta undan yfirvöldum.

Joao Teixeira de Faria, sem þekktur er sem John of God hafði frest til klukkan 14 að staðartíma í gær til að gefa sig fram.

Fjöldi kvenna hefur stigið fram og sakað hinn sjálftitlaða andalækni um að hafa misnotað sig kynferðislega á stofu sinni. Hann starfar í bænum Abadiania en á fylgjendur um allan heim. Sjónvarpskonan Oprah Winfrey heimsótti Faria meðal annars árið 2013 og tók viðtal við hann.

Lögmaður Faria segir að hann muni að lokum gefa sig fram til lögreglu en gat ekki sagt til um hvenær. Jafnframt muni hann áfrýja máli sínu.

Meðal þeirra kvenna sem hefur stigið fram með ásakanir á hendur Faria er hollenski ljósmyndarinn Ahira Leeneke Maus. Hún sagði í samtali við fjölmiðla að Faria hefði misnotað aðstöðu sína og nauðgað henni.

Talsmaður Faria hafnar öllum ásökunum. Í yfirlýsingu segir að hinn 76 ára gamli Faria hafi notað krafta sína til að hjálpa þúsundum manns og hafnar öllum ásökunum um ósæmilega hegðun alfarið.

Níu brasilískar konur sögðu í samtali við brasilísku sjónvarpsstöðina Globo TV að Faria hafi misnotað þær á þeim forsendum að hann væri að færa „hreinsandi orku“ sína yfir á þær. Hluti kvennanna hafði verið í meðferð vegna þunglyndis þegar misnotkunin átti sér stað.

Faria hafði áður verið sektaður og dæmdur í fangelsi fyrir að starfa án tilskilinna leyfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×