Erlent

Ríkisstjórn May býr sig undir að ganga úr ESB án samnings

Kjartan Kjartansson skrifar
May ætlar enn að reyna að fá leiðtoga ESB til að gefa eftir svo hún geti komið útgöngusamningi í gegnum þingið.
May ætlar enn að reyna að fá leiðtoga ESB til að gefa eftir svo hún geti komið útgöngusamningi í gegnum þingið. Vísir/EPA
Breska ríkisstjórnin hefur samþykkt að verja tveimur milljörðum punda í að undirbúa útgöngu úr Evrópusambandinu án samnings um hvað tekur við í samskiptum þeirra. Theresa May forsætisráðherra reynir enn að ná betri samningi við sambandið en tilraunir hennar hafa ekki borið árangur til þessa.

Atkvæðagreiðslu um útgöngusamning May við ESB sem átti að fara fram í breska þinginu á þriðjudag í síðustu viku var frestað þegar ljóst var orðið að hann yrði kolfelldur. May hélt þá til Brussel til að reyna að fá tryggingar frá evrópskum ráðamönnum sem gætu sannfært breska þingmenn til að samþykkja samning hennar.

Forsætisráðuneytið segir nú að tilkynnt verði bráðlega um hvernig tveimur milljörðum punda verður varið til að búa Bretland undir að ganga úr ESB í lok mars án þess að samningur liggi fyrir um viðskipti og samskipti við Evrópu.

Talsmaður May sagði á fundi með fréttamönnum fyrir hádegið að forsætisráðherrann reyndi enn að semja en að hún væri tilbúin að ganga úr ESB án samnings ef nauðsyn krefði, að sögn The Guardian. Viðræður við ESB haldi áfram í þessari viku.

Spurður að því hvort að þingmenn fengju að greiða atkvæði um valkosti við Brexit hafnaði talsmaður forsætisráðherrans því. Útilokaði hann jafnframt að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um útgönguna yrði haldin.


Tengdar fréttir

May snýr tómhent heim frá Brussel

Breska forsætisráðherranum tókst ekki að fá neitt upp úr fulltrúum ESB sem gæti sannfært breska þingmenn til að greiða útgöngusamningi hennar atkvæði sitt.

Önnur þjóðaratkvæðagreiðsla væri svik við þjóðina

May segir að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla væri svik við bresku þjóðina sem hafi nú þegar sagt sína meiningu í atkvæðagreiðslunni árið 2015. Þetta segir May í forsíðuviðtali hjá The Guardian sem verður birt á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×