Innlent

Auka framboð á forritunarkennslu fyrir börn

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Katrín Atladóttir hugbúnaðarverkfræðingur mælti fyrir tillögunni sem var einróma samþykkt.
Katrín Atladóttir hugbúnaðarverkfræðingur mælti fyrir tillögunni sem var einróma samþykkt. Katrín Atladóttir.
Borgarstjórn samþykkti síðdegis í dag samhljóða að auka framboð á forritunarnámi í skóla-og frístundarstarfi borgarinnar. Samþykkt var breytingartillaga meirihlutans við tillögu Katrínar Atladóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Skúli Helgason formaður skóla-og frístundaráðs sagði tillögu Katrínar falla vel að áherslum nýrrar menntastefnu á borð við aukið vægi náttúruvísinda og stærðfræði, heildstæða innleiðingu stafrænnar tækni og læsi.

Skóla-og frístundasviði verður falið að útfæra tillöguna í samræmi við áherslur nýju menntastefnunnar.

Sérstök áhersla verður lögð á að veita kennurum í grunnskólum Reykjavíkur rík tækifæri til starfsþróunar í forritunarkennslu.

Skúli sagði að önnur af tveimur meginforsendum þess að forritunarkennsla komist á flug sé þekking kennara. Hin meginforsendan sé jákvætt viðhorf stjórnenda í garð forritunar.

„Færni á sviði forritunar geta hjálpað nemendum verulega að verða læsir á þá nýju miðla sem tengjast veruleika okkar í dag og sérstaklega upplýsingatækninni.“

Katrín, sem mælti fyrir tillögunni, er sjálf hugbúnaðarverkfræðingur. Í ræðu hennar kom fram að tækni sé orðin samofin daglegu lífi.

„Í dag eru flest börn aðeins neytendur á tækni en skapa ekkert sjálf. Því má í raun segja að þau séu læs en ekki skrifandi í tæknimálum. Til að geta tjáð sig við tölvur þarf að læra tungumál þeirra. Forritun er eina tungumálið sem tölvur tala,“ sagði Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×