Innlent

Notuð jólaföt og notaðar jólagjafir

Sighvatur Jónsson skrifar
Það má spara mikið við jólahaldið með því að kaupa notuð jólaföt á börnin og notaðar jólagjafir. Þá er hægt að endurnýta hluti frá Góða hirðinum við föndur og skreytingar fyrir hátíðarnar.

Hin svokallaða efnismiðlum Góða hirðisins er tilraunaverkefni Sorpu sem hófst í sumar. Þar má kaupa notað byggingarefni og fleira.

Í nóvember var bætt við skapandi deild efnismiðlunarinnar þar sem ýmislegt endurnýtanlegt fyrir jólin er selt ódýrt.

Hver fjölskylda fær bás fyrir sig í Barnaloppunni.Vísir/Baldur

Notaðar barnavörur

Það hefur löngum þótt sparnaðarráð að kaupa vörur á flóamarkaði. Barnaloppan sérhæfir sig í notuðum barnavörum.

Hjá Barnaloppunni getur fólk keypt og selt notaðar barnavörur, allt frá fötum og leikföngum til barnavagna og bílstóla. Seljendur leigja bás í vikutíma í senn og fólk verðleggur vörurnar sjálft. Starfsmenn Barnaloppunnar sjá um söluna fyrir seljendur.

Tinna Jónsdóttir, verslunarstjóri Barnaloppunnar, segir að mikið hafi verið að gera fyrir jólin. „Það er greinilegt að fólk er að nýta sér þetta í gjafir og sparifötin.“

Ásthildur Þóra kíkir af og til í Barnaloppuna.Vísir/Baldur

Merkjavörur á lægra verði

Ásthildur Þóra Reynisdóttir á tvö börn og eitt til viðbótar er á leiðinni. Hún segist kíkja af og til í Barnaloppuna til að skoða vöruúrvalið.

Ásthildur Þóra segir tilvalið að kaupa notaðar merkjavörur á lægra verði á flóamarkaðnum. „Það er gaman að geta átt eitthvað flott í dýrari kantinum en maður tímir ekki að kaupa smábarnaskó á 10.000 krónur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×