Í frétt BBC er málið reifað og hermt að Íslendingar séu sérstaklega hneykslaðir á því að hæðst hafi verið að Freyju Haraldsdóttur. Í frétt BBC er vitnað í fréttir um að einn þeirra sem sat að sumbli á Klaustri hafi hermt eftir sel er verið var að ræða Freyju. Þá er einnig sagt frá því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, haldi því fram að selahljóðið megi rekja til þess að stóll hafi verið færður.
Sjá einnig:Reyndist ómögulegt að framkalla selahljóð með stólunum á Klaustri
Er málið einnig sett í samhengi við Panama-skjölin og rifjað upp að Sigmundur Davíð hafi flækst í umfjöllun sem unnin var upp úr skjölunum og neyðst til þess að segja af sér í kjölfarið.

„Við munum læra af þessu,“ vitnar BBC í afsökunarbeiðnina. Þá er einnig sagt frá því að Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Eggertsson, sem voru með fjórmenningunum á Klaustri umrætt kvöld, hafi verið reknir úr Flokki fólksins vegna málsins.
Í fréttinni er einnig rætt við Bryndísi Snæbjörnsdóttur, formann Þroskahjálpar, sem segir að samstarfsmenn hennar, sem og Íslendingar sem glími við við einhvers konar fötlun, séu í áfalli vegna orða þingmannanna.
„Þetta er hatursorðræða. Það var hræðilegt að hlusta á þingmenninna herma eftir dýrahljóðum til þes að gera grín að fatlaðri konu sem er mikil baráttukona fyrir réttindum fatlaðra,“ segir Bryndís í samtali við BBC. Segir hún að málið sé ófyrirgefanlegt og að þingmennirnir sex ættu allir að segja af sér.
Frétt BBC má lesa hér.