Körfubolti

Fjallabaksleið í undankeppnina

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Craig Pedersen, landsliðsþjálfari, og Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.
Craig Pedersen, landsliðsþjálfari, og Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ. vísir/vilhelm
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta getur ekki komist í undankeppni Eurobasket 2021 í gegnum núverandi riðil eftir sigur Belga á Portúgal um helgina. Öll von er þó ekki úti um sæti í keppninni.

Ísland keppir í C-riðli annarar umferðar forkeppninnar fyrir undankeppni Eurobasket. Ísland tapaði fyrir Portúgal ytra fyrr í haust og í lok nóvember tapaði íslenska liðið fyrir Belgum hér heima.

Eftir að Belgar unnu Portúgal á sunnudaginn 70-60 varð ljóst að Belgar vinna riðilinn. Belgar og Portúgalir eiga eftir að spila einn leik hvor, gegn Íslandi í febrúar. Þeir leikir hafa þó í raun enga þýðingu því úrslit riðilsins liggja fyrir.

Liðin sem komast ekki áfram úr undanriðlunum fjórum fara áfram í þriðju umferð forkeppninnar. Þar munu þau, ásamt fjórum liðum sem komust ekki áfram úr fyrstu umferðinni, keppast um fjögur laus sæti í undankeppninni.

Þeir leikir fara fram í ágúst 2019 og aftur verður liðunum skipt upp í fjóra þriggja liða riðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×