Erlent

May talin ætla að krefja Evrópusambandið um betri samning

Kjartan Kjartansson skrifar
Verði Brexit-samningur May felldur með afgerandi meirihluta atkvæða í þinginu væri henni varla vært áfram í embætti.
Verði Brexit-samningur May felldur með afgerandi meirihluta atkvæða í þinginu væri henni varla vært áfram í embætti. Vísir/Getty
Atkvæðagreiðslu um útgöngusamning Theresu May forsætisráðherra í breska þinginu sem átti að fara fram í vikunni verður frestað á meðan hún heldur til Brussel og krefur Evrópusambandið um hagstæðari samnings. Allt stefnir í að núverandi samningi verði hafnað í þinginu.

Breska blaðið Sunday Times fullyrðir að May bindi vonir sínar nú við að ná nýjum og betri samningi í Brussel. Hún mun tilkynna í dag að hún ætli að fresta atkvæðagreiðslunni. Andstaðan við þann samning er svo mikil að pólitísk framtíð May er sögð í hættu ef hún tapar atkvæðagreiðslunni með afgerandi mun.

Fram að þessu hefur May haldið fast við að núverandi samningur sé sá eini sem er í boði. Valið standi á milli hans og útgöngu án samnings sem gæti reynst Bretum dýrkeypt eða að ekkert verði af útgöngunni úr Evrópusambandinu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Nokkrir ráðherrar í ríkisstjórn May sem styðja Brexit og leiðtogar Íhaldsflokksins í þinginu eru sagðir hóta því að segja af sér ef atkvæðagreiðsla fer fram um núverandi samning.

Að óbreyttu ganga Bretar úr Evrópusambandinu í lok mars.


Tengdar fréttir

Enginn frestur fyrir May

Þingið mun greiða atkvæði þann 11. desember um samkomulagið sem ríkisstjórn Theresu May forsætisráðherra hefur náð við ESB um útgöngu Breta.

Segir Breta geta hætt við Brexit einhliða

Bresk stjórnvöld ættu einhliða að gera hætt við útgöngu sína úr Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í áliti lögsögumanns (e. advocate general) Evrópudómstólsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×