Þetta kom fram í umræðu undir stjórn Heimis Más Péturssonar í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi. Upptöku úr þættinum má sjá neðst í fréttinni.
Fjölmargar þinkonur og einhverjir þingmenn fengu að heyra það hjá Bergþóri Ólasyni, Gunnari Braga Sveinssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni á hótelbarnum Klaustri þann 20. nóvember síðastliðinn. Stóð þingfundur enn yfir þegar þingmennirnir tylltu sér, helltu í glösin létu móðinn mása næstu klukkustundirnar.

Leið en svo fjúkandi reið
Þorgerður Katrín segir fyrst hafa orðið leið þegar hún heyrði af upptökunum. Þegar á leið breyttist leiðin í reiði. Sagðist hún hafa orðið „fjúkandi reið“ þegar hún heyrði ummælin um Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur og Freyju Haraldsdóttur.Þá töluðu þingmennirnir um unga stjórnmálakonu úr Sjálfstæðisflokknum sem væri „sæt“ en ekki eins sæt og fyrir tveimur árum. Það væri búið að falla svo mikið á hana og það myndi vinna gegn henni á framabraut í flokknum.
„Þeir hafa ekki litið í spegil lengi sjálfir,“ sagði Inga Sæland. Þorgerður Katrín hafði sitt að segja.
„Það hefur aldrei verið talað svona um karlmenn,“ sagði Þorgerður Katrín.
„Það er verið að tala um okkur konur eins og við séum eitthvert uppfyllingarefni.“

Aðeins þeirra að læra af þessu
Páll Magnússon sagðist vera orðinn þreyttur á því orðalagi að fólk eða Alþingi gætið dregið lærdóm af málinu.„Þegar menn eru að tala um að það eigi allir að draga lærdóm af þessu eða eitthvað slíkt.. Ég dreg engan lærdóm af þessu, ég ber enga ábyrgð á því sem þetta fólk sagði þarna. Ég tek þetta ekki til mín. Það á ekki að dreifa þessari ábyrgð og segja að þingið eigi að læra af því. Þetta fólk sem gekk fram með þessum fyrirlitlega hætti á eitt og sjálft að bera ábyrgð á þessu.“
Hann hafi aldrei heyrt slíkan talsmáta, hafi hann þó verið á lúkar í Vestmannaeyjum.
„Mér finnst þetta lítilmótleg framkoma og öllum þeim sem sátu þennan fund til stórskammar. Því miður smitast þetta svo yfir á Alþingi,“ sagði Páll og vísaði til þess að um tíu prósent þingmannanna 63 hafi verið í þessari samdrykkju.

Áfengi engin afsökun
Sagði Páll áfengisneyslu enga afsökun fyrir orðavali þingmannanna.„Ég heyrði ekki betur en þeir væru með fullri rænu þegar þeir voru að segja þessa viðurstyggilegu hluti um konur í þessu viðurstyggilega samkvæmi. Og það er engin afsökun og ekkert skjól í því fyrir þá að þeir hafi verið að drekka. Þeir bera fulla ábyrgð.“
Inga og Þorgerður Katrín voru sammála um að siðanefnd Alþingis þyrfti að taka málið fyrir. Nefndi Þorgerður Katrín sérstaklega hve mikilvægt væri að þingmenn, kjörnir fulltrúar, færu fram með fordæmi enda jafnrétti eitthvað sem konur berjist fyrir víða á vinnustöðum.
Þetta viðhorf sem birtist í orðum þingmanna bendi ekki til þess að þau sjónarmið séu í hávegum höfð.