Innlent

Tíðni vopnaðra útkalla sérsveitarinnar margfaldast undanfarin ár

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Sérsveitin sinnir útkalli á Seltjarnarnesi.
Sérsveitin sinnir útkalli á Seltjarnarnesi. Fréttablaðið/Stefán
Vopnuð útköll og verkefni sérsveitarinnar nærri þrefölduðust milli áranna 2016 til 2017, voru 108 árið 2016 en 298 árið á eftir. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Smára McCarthy um vopnuð verkefni og útköll sérsveitar lögreglu.

Samkvæmt svarinu eru helstu skýringar á þessari miklu aukningu fjölgun á tilkynningum til lögreglu um vopnaða einstaklinga en þær tvöfölduðust á milli áranna 2016 og 2017 og á fyrstu níu mánuðum þessa árs hafa tilkynningar til lögreglu um vopnaða einstaklinga verið 157 talsins en þær voru 174 allt árið á undan.

Í svari ráðherra kemur fram að það sé ekki stefna ríkisstjórnarinnar að fjölga vopnuðum verkefnum eða útköllum lögreglu og engar breytingar hafi verið gerðar á starfsreglum, málaflokkum eða aðgerðavenjum lögreglu eða sérsveitar ríkislögreglustjóra. Skýringar á aukningu skotvopnanotkunar, tilkynninga til lögreglu og vopnaðra útkalla og verkefna sérsveitarinnar sé að finna í eðli brota og samsetningu brotamanna í landinu.

Þá er í svarinu tæpt á ýmsum aðgerðum sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum. Viðbótarfjármagni var varið til eflingar löggæslu almennt í landinu, til kaupa á búnaði og umfangsmiklar skipulagsbreytingar hjá lögreglunni með fækkun lögregluembætta úr 15 í níu og aðskilnaði lögregluembætta og sýslumannsembætta árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×