Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll - ÍR 92-51 | Tindastóll burstaði ÍR

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Brynjar Þór Björnsson situr á toppnum með félögum sínum að norðan
Brynjar Þór Björnsson situr á toppnum með félögum sínum að norðan vísir/daníel
Tindastóll valtaði yfir ÍR á Sauðárkróki í Domino‘s deild karla í kvöld og styrkti stöðu sína á toppi deildarinnar. Lokatölur urðu 92-51 í Síkinu.

Leikurinn byrjaði vel og var í járnum í fyrsta leikhluta, staðan 19-17 að honum loknum. Í öðrum leikhluta hrundi hins vegar leikur ÍR og Stólarnir gengu á lagið. Þeir settu hverja körfuna á fætur annarri á meðan ekkert gekk hjá ÍR. Í hálfleik var staðan orðin 44-27.

Brekkan var orðin brött fyrir gestina en ÍR-ingar hafa oft komið til baka. Borche Ilievski náði hins vegar ekki að knýja fram endurkomu hjá sínum mönnum í þetta skiptið, Tindastóll jók muninn í þriðja leikhluta og varð sá fjórði því aðeins formsatriði.

Þegar uppi var staðið munaði fjörutíu og einu stigi á liðunum og Tindastóll situr því sem fastast í toppsæti Domino‘s deildarinnar.

Af hverju vann Tindastóll?

ÍR-ingar náðu ekki að stoppa í blæðinguna þegar hún kom í öðrum leikhluta. Körfubolti á að vera íþrótt áhlaupa en aldrei kom áhlaupið frá ÍR. Stólarnir spiluðu frábæran varnarleik eins og hefur oft verið einkennismerki þeirra og með skyttur á borð við Brynjar Þór Björnsson og Pétur Rúnar Birgisson innanborðs þá skila stigin sér alltaf á töfluna.

Hverjir stóðu upp úr?

Pétur Rúnar fór fyrir liði Tindastóls eins og svo oft áður og stýrði leik þeirra mjög vel. Brynjar skoraði þriggja stiga körfur að vild. Þetta var fyrsti leikur Tindastóls án Urald King sem er farinn í fæðingarorlof til Bandaríkjanna. Í hans stað kom inn P.J. Alawoya og stóð sig mjög vel með 13 fráköst og þrjú varin skot.

Í liði ÍR var Sigurður Gunnar Þorsteinsson sá eini sem spilaði ekki eins og draugur af sjálfum sér og barðist undir körfunni út allan leikinn.

Hvað gekk illa?

Það gekk allt illa hjá ÍR. Sérstaklega þó sóknarleikurinn. Þegar komið var seint inn í þriðja leikhluta höfðu Breiðhyltingar skorað eitt stig fyrir hverja mínútu sem liðin var af leiknum og þeir rétt ná að fara yfir það í lokin, 52 stig á 40 mínútum er augljóslega ekki nógu gott.

Hvað gerist næst?

Næstu leikir eru ekki fyrr en 9. desember þar sem deildin er á leiðinni í smá hlé vegna landsliðsverkefnis. Þar mætir ÍR Njarðvík, einu af heitustu liðum deildarinnar, í hörkuleik á meðan Stólarnir sækja nýliða Breiðabliks heim í Kópavoginn.

Tindastóll-ÍR 92-51 (19-17, 25-10, 32-14, 16-10)

Tindastóll:
Pétur Rúnar Birgisson 22/5 fráköst/6 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 20, Dino Butorac 16/5 fráköst/5 stoðsendingar, Philip B. Alawoya 13/13 fráköst/3 varin skot, Danero Thomas 12/11 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 3, Helgi Rafn Viggósson 2, Hannes Ingi Másson 2, Friðrik Þór Stefánsson 2.

ÍR: Sigurður Gunnar Þorsteinsson 15/8 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 11/5 fráköst/6 stoðsendingar, Gerald Robinson 8/7 fráköst, Justin Martin 5/5 fráköst, Sæþór Elmar Kristjánsson 5, Einar Gísli Gíslason 3, Trausti Eiríksson 2, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 2.

Isreal Martin er þjálfari Tindastóls.vísir/bára
Martin: Gáfum allt í 35 mínútur

„Við höfum verið að spila góðan körfubolta í síðustu leikjum. Þetta var erfiður leikur, fyrsti leikurinn án King og það er aldrei auðvelt að spila á móti ÍR. Við gáfum allt í þetta í 35 mínútur,“ sagði Isreal Martin þjálfari Tindastóls.

Hann var ánægður með framlag Alawoya í leiknum. „Hann er liðsspilari og gaf okkur það sem við bjuggumst við af honum. Hann þarf aðeins meiri leikæfingu en hann er klár og skilaði góðri tölfræði.“

Martin tók leikhlé í miðjum öðrum leikhluta þegar Tindastóll var kominn með nokkurra stiga forskot og öskraði á sína menn.

„Það þarf stundum að vekja menn. Það vantaði aðeins upp á einbeitinguna og ég þurfti að gera eitthvað.“

Borche hefur átt auðveldari daga í starfi sínuvísir/bára
Borche: Verðum að hafa baráttuvilja annars töpum við

„Mér fannst við koma inn í þennan leik eins og við værum að spila vináttuleik. Það sem við ræddum á æfingum skilaði sér ekki inn á völlinn því við vissum nákvæmlega hvernig þeir væru að fara að spila,“ sagði Borche Ilievski, þjálfari ÍR, í leikslok.

„Við vorum einbeitingarlausir og leyfðum þeim að skora auðveldar körfur. Þegar þeir voru komnir með sjö, átta stiga forskot og ég var búinn að nota öll leikhléin þá var þetta erfitt.“

„Við þurfum að breyta miklu í okkar leik annars fer illa. Leikmennirnir verða að hafa orku og baráttuvilja því annars munum við tapa leiknum sama hver formúlan er.“

Matthías Orri Sigurðarson er enn á hliðarlínunni borgaralega klæddur vegna meiðsla. Borche gat ekkert sagt um það hvenær hann kæmi til baka.

„Hann er farinn að skjóta en ég veit ekki hvenær hann kemur til baka, það verður að spyrja hann að því.“

Brynjar Þór Björnssonvísir/daníel
Brynjar: Er nokkuð ferskur

„Mér líður mjög vel, er nokkuð ferskur því ég spilaði lítið í dag enda frammistaðan frábær hjá öllum,“ sagði Brynjar Þór Björnsson í leikslok. Brynjar skilaði 20 stigum fyrir Tindastól í kvöld. 

„Vörnin stóð upp úr og sóknarleikurinn góður á köflum. Þegar vörnin er svona góð þá skilar hún opnum skotum.“

Brynjar var ánægður með innkomu P.J. Alawoya en þeir þekkjast ágætlega frá þeim tíma þegar þeir voru báðir í röndóttum treyjum KR.

„Hann kemur með vídd sem King er ekki með. Hann opnar sig örðuvísi og býr til færi fyrir okkur hina. Mér fannst hann koma frábærlega inn í þetta.“

Næsti leikur Stólanna er gegn nýliðum Breiðabliks og Brynjar fór ekkert í felur með það að Tindastóll á á pappírnum að vinna í Smáranum.

„Vörnin þarf að vera til staðar, þeir hafa sýnt að þeir geta skorað á öll lið. Þeir spila villtan bolta en þetta er lið sem við eigum að vinna.“

Sigurður Gunnar Þorsteinsson.Vísir/Bára
Siggi: Fór allt úrskeiðs

Sigurður Gunnar Þorsteinsson var hreinskilinn í leikslok spurður hvað hafi farið úrskeiðs og svarið var einfalt: „Allt. Það er það eina sem ég get sagt.“ 

„Við spilum ekki vörn og spilum ekki sókn.“

Svarið var það sama þegar hann var spurður að því hvað þyrfti að bæta: „Allt.“

„Þetta var hrikalegt, við héldum ekki boltanum og héldum engum fyrir framan okkur.“

ÍR býður erfitt verkefni í næsta leik, leikur á móti einu heitasta liði deildarinnar Njarðvík. 

„Við munum rífa okkur upp, við hljótum að gera betur en þetta það er ekki annað hægt.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira