Viðskipti erlent

Bannað að auglýsa óhollustu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Á þessari lestarstöð verður engin óhollusta auglýst eftir þrjá mánuði.
Á þessari lestarstöð verður engin óhollusta auglýst eftir þrjá mánuði. Getty/Waring Abbott
Bannað verður að auglýsa óhollustu í almenningssamgöngukerfi Lundúna frá og með febrúar á næsta ári. Bannið tekur til flestra sykraðra drykkja, hamborgara, súkkulaðis og saltaðra hneta og nær til lesta-, sporvagna- og strætókerfis borgarinnar.

Skyndibitakeðjur munu þó áfram geta auglýst eftir að bannið, sem borgarstjóri Lundúna kynnti til sögunnar, tekur gildi. Þær mega þó aðeins auglýsa vörur sem ætla megi að teljist í hollari kantinum; svo sem ósaltaðar hnetur, rúsínur og sykurlausa drykkir. Keðjunum verður þó óheimilt að birta auglýsingar sem aðeins samanstanda af vörumerki (e. logo) þeirra eða eru til þess eins fallnar að koma nafni keðjunnar á framfæri.

Talsmenn auglýsingageirans þar í landi hafa mótmælt banninu og bent á að með því verði almenningssamgöngur borgarinnar af tugum milljóna punda á ári hverju. Það geti vart talist æskilegt, í ljósi þess að almenningssamgöngur Lundúna eru þegar undirfjármagnaðar.

Þrír mánuðir fyrir 35 milljónir

Borgarstjórinn Sadiq Khan er þó hvergi banginn enda benda skoðanakannanir til að íbúar Lundúna styðji auglýsingabannið. Hann minnir efasemdamenn í auglýsingabransanum á að skyndibitastöðum verði áfram heimilt að auglýsa í lestum og strætisvögnum - svo lengi sem þeir gera hollari valkostum sínum hærra undir höfði.

Engu að síður er formaður samtaka sem gæta hagsmuna breskra auglýsingastofa ekki sannfærður. Haft er eftir Justin Cochrane á vef The Guardian að ólíklegt verði að teljast að almenningssamgöngukerfi borgarinnar nái að brúa hið 35 milljón punda bil sem mun skapast eftir að auglýsendum óhollustu verður úthýst. Ekki sé útilokað að það muni gerast með tíð og tíma en hinn þriggja mánaða fyrirvari sé of knappur fyrir Sadiq Khan og félaga til að selja öll auglýsingaplássin sem munu óneitanlega losna með tilkomu bannsins.

Þá gefur hann einnig lítið fyrir tölfræði þess efnis að um 37% breskra barna á aldrinum 10 til 11 ára séu í ofþyngd. „Það eru engar sannanir fyrir því að auglýsingabann auðveldi baráttuna gegn ofþyngd barna. Við störfum nú þegar eftir mörgum siðareglum,“ er haft eftir Cochrane.

Búist er við því að fleiri stórborgir fylgi í fótspor Lundúna. Er þar nærtækast að nefna Amsterdam, sem þegar hefur kynnt sambærilegt bann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×