Samningurinn tekur meðal annars til vöru- og þjónustuviðskipta, opinberra útboða, hugverkaréttinda og sjálfbærrar þróunar. Á meðal þeirra vöruflokka sem falla undir samninginn eru fisk- og sjávarafurðir, iðnaðar- og tæknivörur, sem og landbúnaðarafurðir.
Haft er eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, á vef Stjórnarráðsins að þessum samningi fylgi augljós ávinningur fyrir íslenska útflytjendur. Indónesía sé ört vaxandi markaður með 260 milljónir íbúa en samanlögð vöruskipti Íslands og Indónesíu í fyrra námu rúmum milljarði króna. Indónesía var 67 stærsti vöruútfluningsmarkaður Íslands á síðasta ári og 49 vöruinnflutningslandið. Íslendingar flytja einna helst inn skó og annan fatnað inn frá Indónesíu, sem á móti kaupir mikið af makríl, loðnu og þorski frá Íslandi.
Fleiri samningar á borðinu
„Viðræðurnar tóku drjúgan tíma en niðurstaðan er líka ákaflega góð og því fagna ég þessum áfanga innilega,“ segir Guðlaugur Þór sem undirritaði yfirlýsinguna í Genf í dag.Auk hans voru ráðherrar frá Noregi, Lichtenstein og Sviss samankomnir á haustfundi EFTA-ríkjanna. Þar fóru þeir meðal annars yfir stöðu og horfur í yfirstandandi fríverslunarviðræðum og hvert skyldi stefna í þeim efnum. Er einhugur sagður hafa verið á fundinum um að halda áfram fríverslunarviðræðum EFTA við Indland, Víetnam, Malasíu og Mercosur-ríkin. Þá eiga ráðherrarnir að hafa rætt „hugsanlega uppfærslu á gildandi fríverslunarsamningum EFTA við Kanada, Chile og Mexíkó og möguleika á að hefja fríverslunarviðræður við Pakistan, Moldóvu og Kósovó í náinni framtíð.“
EFTA ríkin hafa nú gert 28 fríverslunarsamninga við 39 ríki eða landssvæði og sex samstarfsyfirlýsingar.