Fótbolti

Úrslitaleikur River og Boca verður spilaður utan Argentínu en hvar?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmaður River Plate fyrir framan óeirðalögregluna í Buenos Aires.
Stuðningsmaður River Plate fyrir framan óeirðalögregluna í Buenos Aires. Vísir/Getty
Úrslitaleikur River Plate og Boca Juniors í Copa Libertadores keppninni átti að fara fram í Buenos Aires á laugardag og svo var settur aftur á sama stað á sunnudag. Nú er hinsvegar orðið ljóst að argentínsku liðin fá ekki að útkljá sína baráttu innan landamæra Argentínu.

Þetta er seinni leikur liðanna um Copa Libertadores bikarinn en sá fyrri endaði með 2-2 jafntefli á heimavelli Boca Juniors.





Fótboltabullur River Plate, sem kalla sig Barra Brava en aðrir kalla mafíu argentínska fótboltans, réðust á liðsrútu Boca Juniors á leið á leikinn þannig að leikmenn slösuðust og algjör ringulreið skapaðist innan herbúða liðsins. Leiknum var seinkað en síðar frestað og síðan frestað aftur daginn eftir.

Forsetar River Plate og Boca Juniors og aðrir sem koma að málum hittust í gær á fundi þar sem farið var yfir stöðuna sem og leitað að lausnum og nýjum leikstað og nýjum leiktíma.





Knattspyrnusamband Suður-Ameríku tilkynnti síðan eftir þennan langan fund að seinni úrslitaleikurinn yrði spilaður utan Argentínu en það verði tilkynnti seinna hver leikstaðurinn verði. Leikurinn mun ekki fara fram fyrr en 8. eða 9. desember.

Mikið var talað um það í gær að færa leikinn til Asunción í Paragvæ en hvorugt félagið var víst spennt fyrir því. Miami borg í Bandaríkjunum var líka nefnd til sögunnar en einnig gæti leikurinn farið fram í Brasilíu.

Nýjasta útspilið er að ítalska borgin Genoa hefur kallað eftir að fá leikinn til sín.

Borgastjórnin í Genoa skrifaði báðum félögum og bauðst til að hýsa leikinn en innflytjendur frá ítölsku borginni áttu mikinn þátt í því að River Plate og Boca Juniors voru stofnuð á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×